Um ilm ljóða og blóma

Sjötta ljóð bókar Sigfúsar Daðasonar, Hendur og orð hljóðar svo:

 

Margvíslegt útsýni opnaðist hendi þinni

ung fullsæla tindraði af óþekktum sjónbaug

 

síðan verða spurningar til sem þú færð ekki svarað

í grænkandi laufi með hækkandi sól

 

hið nýja ár var sjávarselta fjallafirð

en færist nú fjær þér þú minnist þess dags

 

er þú varst orðinn nýzkur á líf þitt

án þess að hyggjast spara það til neins

 

klukkustundirnar voru þér gull nirfilsins

ó gnægð lífs ó hrynjandi skotsilfur

 

*

 

Örvæntingin býr sér hreiður snemma vors

hvern dag hverja nótt vonar þú að skurnin bresti

 

þegar haustar verða hinir seinþroska ungar orðnir fleygir.

 

Í kaflanum „Þrjú töorræð ljóð" í bók sinni Ljóðhús, segir Þorsteinn Þorsteinsson um þetta ljóð Sigfúsar: „Og ég vil leyfa mér að bæta við þeirri ófræðilegu athugasemd að mér þykir sjötta ljóðið í Höndum og orðum „Margvíslegt útsýni" með fegurstu og fullkomnustu ljóðum Sigfúsar þó því fari fjarri að ég skilji það."

Þarna er komið að kjarna málsins í allri umræðu um ljóðlist; skilningurinn er ágætur til síns brúks, en aðeins þegar við á.  Það er skynjunin, listin að njóta, sem er fyrir öllu.  Vissulega getur verið gaman að þekkja tegundarheiti blóms, sem maður rekst á úti á víðavangi.  En litur þess, form og ilmur er þó það, sem vekur manni gleði og unað.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband