27.8.2007 | 21:21
Til verndar gömlum húsum
Nú um stundir er efnahagslíf þjóðarinnar þanið eins og falskur gítarstrengur og óhljóðin eftir því. Sérstaklega er líkt og peningamönnum sé uppsigað við allt það, sem tengir fólk við fortíðina. Þannig er miðbær Reykjavíkur í stór hættu, því menn vilja ólmir rífa gömul hús og reisa glerhallir. Þessar glerhallir á svo að fylla af erlendu ferðafólki, sem á það erindi eitt til borgarinnar, að njóta þess, að ganga milli gamalla húsa. Sú dýrð stendur tæpast lengi, fari svo sem horfir. Þá er það mikil lenska, að byggja svo háar glersúlur, að tæpast sért á toppinn á herlegheitunum nema úr lofti. Eru þær undantekningarlaust svo ljótar, að ég hef það fyrir satt, að þegar ein þeirra reis nú um daginn, hafi Kölski sjálfur sent svo hljóðandi skeyti til Lykla-Péturs: Nei, karl minn, þessu kom ég hvergi nærri. Það eru nefnilega grensur".
En hvað um það. Ég er með hugmynd, sem ég hygg, að vert sé að velta fyrir sér. Hvers vegna ekki að leggja lægri opinber gjöld á hús, sem hafa menningarsögulegt og fagurfræðilegt gildi, heldur en á aðrar byggingar? Auðvitað mundi þetta með fagurfræðina valda endalausum deilum, en mér er sama. Mér er hins vegar ekki sama um það, að til standi að rífa enn fleiri gömul hús í borginni. Gætum að því, að aðeins 1% húsa í Reykjavík eru gömul timburhús. Og mér er spurt; eru þau fyrir einhverjum öðrum en þeim, sem láta stjórnast af blindri gróðahyggju?
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.