Þar kom að því, stórmerk bók um ljóð Sigfúsar Daðasonar

1154

Loksins er hún komin, bókin sem ég hef beðið eftir í aldarfjórðung; bók, þar sem fjallað er um nútíma ljóðagerð af fræðilegri þekkingu, skáldlegu innsæi og almennri skynsemi. Ég á við bók Þosteins Þorsteinssonar Ljóðhús, en hún ber undirtitilinn „Þættir um skáldskap Sigfúsar Daðasonar".

Ég verð að játa, að ég er enn að lesa bókina. Og ég les hana hægt, enda er hún þess eðlis, að yfir hana verður ekki hlaupið á hundavaði. Til þess er hún of góð.

Enda þótt bókin fjalli fyrst og fremst um ljóðagerð Sigfúsar er þar einnig fjallað um nútímaljóð almennt, t.d. í ýtarlegum kafla, sem nefnist „Útúrdúr um ljóðbyltingar".

Nú er ég að lesa kafla, sem ber heitið „Margvíslegt útsýni". Það fjallar Þorsteinn m.a. um það, hvort skilningur skálda á eigin ljóðum sé endilega algildur. Hann kemst að þeirri niðurstöðu, að svo sé ekki og vitnar í því sambandi m.a. í fræg ummæli Benedikts Gröndal: „Mitt er að yrkja, ykkar að skilja". Þá vitanar hann einnig í T.S. Eliot og segir „ Og T.S. Eliot ræðir á einum stað um það hvort skáld geti úrskurðað um merkingu skáldskapar síns. Hann lætur svo ummælt að skáldið geti að vísu sagt frá vinnubrögðum sínum, tilorðningu verkisins og því „hvað það vildi sagt hafa" á sínum tíma. „En merking ljóðs er ekkert síður skilningur annarra á því en skilningur höfundarins", og svo getur farið að dómi Eliots að skáldið verði um síðir bara eins og hver annar lesandi, gleymi þeirri merkingu sem hann hugði ljóðið hafa í upphafi eða skipti um skoðum".

Þetta er hverju orði sannara. Aðeins „brúksskáldskapur", svo sem kirkjulegt sálmastagl og pólitískar upphrópanir, sem sveipa sig skykkju ljóðlistarinnar, hafa einhverja algilda merkingu. Allur góður skáldskapur höfðar til skynjunar lesandans. Og auðvitað er ekkert fjær lagi, en að til sér einhver „almenn skynjun".

Meira um þessa frábæru bók síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband