18.8.2007 | 21:42
Á rölti um Reykjavík
Litla borgin við sundin blá, skartaði sínu fegursta í dag. Fólksstraumurinn flæddi um stræti hennar og torg eins og jökulsár í vorleysingum. Á götuhornum gaf að líta smá sýnishorn af blessaðir Menningunni, með stóra emminu. Svo var það ekki meir.
Ef til vill er það sérviska mín, en Reykjavík hefur alltaf minnt mig á unglinssnót, sem er rétt farin að finna til sín og laumast í klæðaskáp íturvaxinnar stóru systur sinnar og smokrar sér í sparikjólinn hennar. Einhvern veginn er eins og þessi borg fylli aldrei almennilega út í umbúðirnar. Sérstaklega hefur þetta ágerst síðustu árin. Byggingarnar, sem reistar eru, minna helst á ljónstennur, sem reynt er að troða upp í kattarskolt. Að vísu er ég ekki sérfróður maður um tennur, hvorki manna né dýra, en ég hef ekki trú á, að þetta gangi.
Og nú ætla menn eina ferðina enn að fara að setja kúbeinið á söguna og rífa húsin við Laugaveg 4 og 6 til að byggja þar hótel í nýmóðins stórborgarstíl. Það er gott og blessað, að menn skuli eignast hús. En það er öllu lakara, þegar þeir telja sjálfum sér og öðrum trú um, að þar með eignist þeir umhverfi og menningararfleifð, sem þeir geti farið með að vild sinni. Flest hús eru í einkaeigu; umhverfi og menning eru það ekki. Svo einfallt er það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.