18.8.2007 | 01:24
Kersknikvæði eftir prófessor Jón Helgason
Jón Helgason prófessor gat átt til nokkra kerskni í kveðskap sínum, eins og alkunna er. Sumt af kvæðum hans og vísum þess eðlis, birtust í heildarsafni hans, sem út kom árið 1986, annað ekki. En það sem ekki birtist í umræddu heildarsafni, hefur gengið milli manna áratugum saman. Margt af þessu er græskulaus kveðskapur, gjarnan úr stúdntalífi Íslendinga í Kaupmannahöfn, frá námsárum Jóns. Hér læt ég fljóta með eitt slíkt slíkt kvæði frá árinu 1920. Tilefni þess var, að stúdent einn, sem þarflaust er að nefna hér, fluttist í herbergi, þar sem reyndist vera veggjalús. Var hún svo aðgangshörð við hinn unga stúdent, að hann hafnaði á sjúkrahúsi.
Veggjalúsarkvæði
Vörpulegt dýr er veggjalús,
vitni þess Geiri ber;
fluttur var hann í fagurt hús,
fullvel þar undi sér,
lofaði mjög sín höpp og hag
háttandi í dúnmjúkt ból,
- en lofa áttu öngvan dag
áður en rennur sól.
Þrútin af vonzku vagar fram
veggjalús býsna stór,
framan í Geira hristi hramm,
hugðist að fremja klór,
jafnskjótt og Geiri hræddur hrein
í holu lúsin þaut,
gægðist samt út það eiturbein
óðar en gólið þraut.
Veggjalúsin með víðan skolt
veglegan kappann beit,
mannakjöt reyndist henni hollt,
horskjátan gerðist feit.
Settur var Geiri á sjúkrahús,
sat þar með nöguð þjó,
voluð og hungruð veggjalús
veslaðist upp og dó.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Greta Björg Úlfsdóttir, 18.8.2007 kl. 12:58
Það hefur verið rammlega stuðlað umhverfið þar á Rauðsgili.
Árni Gunnarsson, 21.8.2007 kl. 18:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.