16.8.2007 | 22:37
Hreppaflutningar nútímans?
Hún var ófögur fréttin, sem birtist á Stöð 2 í kvöld. Öldruð hjón í Hveragerði eru aðskilin af heilbrigðisyfirvöldum, með þeim hætti, að maðurinn, sem er illa farinn eftir heilablóðfall, er fluttur frá sjúkrahúsinu á Selfossi og austur á dvalarheimilið á Kirkjubæjarklaustri, að sögn hjúkrunarforstjórans á Selfossi, vegna þess, að ekki er pláss fyrir hann á sjúkrahúsinu. Eiginkona sjúklingsins treystir sér ekki til að aka austur, en það er 214 km akstur, hvora leið, og heimsækja mann sinn. Hún er því upp á náð og miskunn vina og vandamanna komin í þeim efnum. Þetta ástand hefur varað frá því í september á síðasta ári. Allan þann tíma hefur gamla konan aðeins getað heimsótt mann sinn u.þ.b. einu sinni í mánuði.
Fram kom í fréttinni, að kona hafði veitt samþykki sitt fyrir þessari ráðstöfun yfirmanna sjúkrahússins. En þegar henni snérist hugur daginn eftir, var það of seint, maður hennar hafði þegar verið sendur austur á Kirkjubæjarklaustur, en við þann fagra stað hefur hann ekki nokkur tengsl og hefur aldrei haft.
Ríkir menn erum vér Íslendingar af þeim auði, sem mölur og ryð fá grandað. En snautt er hjartað.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hefur einhver einhvertiman latid ser detta i hug, hver eru launin hja dyrahirdum i husdyragardinum eg meina grunnlaun.
Og hver eru laun hja folki i ummönnunarstörfum, og a barnaheimilum???
Adalheidur Sigurdardottir (IP-tala skráð) 17.8.2007 kl. 16:44
Góð ræða hjá þér. Því miður er þetta alsiða og þykir góð hagræðing. Kv.
Baldur Kristjánsson, 17.8.2007 kl. 20:25
Þetta er til háborinnar skammar - eins og svo margt og margt annað í okkar steinríka þjóðfélagi - en því miður ekki sama hvort fólk er Jón eða séra Jón þegar kemur að skiptingu auðsins.
Greta Björg Úlfsdóttir, 19.8.2007 kl. 22:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.