Fer sögukennslu hnignandi?

Því miður er ég ekki frá því að sögukennslu hafi hrakað í skólum landsins undanfarin ár. Vafalaust er ýmislegt, sem því veldur, þar á meðal sú umdeilda ákvörðun, að steypa saman ýmsum greinum í grunnskóla, undir því víða heiti „samfélagsfræði." Sögukennsla var látin falla undir þessa grein.

Nú er það svo, að hugtök verða þeim mun marklausari, eftir því sem þau spanna víðara svið. „Samfélagsfræðin" er augljóst dæmi þessa.

Glöggt dæmi hnignandi söguþekkingar þjóðarinnar, er vaxandi vankunnátta á á jafn miklu grundvallaratriði Íslandssögunnar og stöðu Íslands í norska og síðar danska konungsríkinu. Samhliða þessu, virðist það hafa skolast mjög til hjá ólíklegustu mönnum, hvenær Ísland öðlaðist sjálfsstæði.

Reyndar hefur hugtakið „sjálfstæði" enga þýðingu varðandi réttarstöðu þjóða. Á nýlendutímanum gátu einstakar nýlendur þannig haft visst „sjálfstæði" í sínum innri málum. Þannig var það t.d. með þar nýlendur Breta í Ameríku, sem í fyllingu tímans gerðu uppreisn og stofnuðu með sér bandalag, sem kallast Bandaríkin.

Nýlenduveldin, bæði smá og stór, voru mjög flókin fyrirbæri í stjórnarfarslegu tilliti. Því fór fjarri, að öll þau lönd, sem undir þau voru sett, flokkuðust sem nýlendur. Þannig var Ísland aldrei nýlenda. Það var skattland Noregskonungs og síðar hjálenda Danakonungs. Þegar þjóðþing var stofnað í Danmörku, samkvæmt stjórnarskránni frá 5. júní 1849, bauðst Íslendingum að senda þangað fulltrúa sína, hverju þeir höfnuðu, einmitt á þeim forsendum, að þeir væru sérstök þjóð, en ekki Danir. Á þessum tíma réðu Danir Jómfrúreyjum. Ekki hvarflaði að þeim, að bjóða íbúum þeirra eyja sæti á danska þinginu. Hvers vegna ekki? Jú, það var vegna þess, að þeir litu á eyjarnar sem nýlendu en ekki hjálendu. Og nýlendubúar gátu, eðli málsins samkvæmt, ekki tekið þátt í stjórn ríkisins. Sama gilti um Grænlendinga.

Nú kann einhver að spyrja, hvers vegna Færeyingum hafi þá ekki boðist að senda eigin fulltrúa á danska þingið. Litu Danir á Færeyjar sem nýlendu? Nei, það gerðu þeir ekki. En þeir viðurkenndu ekki þjóðréttarlega stöðu Færeyinga. Það var því ekkert sem kom beinlínis í veg fyrir það, að Færeyingur tæki sæti á danska þinginu. En það hefði hann þá ekki gert sem fulltrúi sinnar eigin þjóðar, sem ekki var til, að mati Dana, heldur sem hver annar Dani.

Sjálfstæðisbaráttu Íslendinga lauk ekki með lýðveldisstofnunni 17. júní 1944, heldur með gildistöku Sambandslagasáttmálans 1. desember 1918. Þann dag varð Ísland frjálst og fullvalda ríki, enda þótt það væri í konungssambandi við Dani. Það var ekki lengur dönsk hjálenda, enda var Danakonungur ekki lengur konungur Íslendinga sem slíkur, heldur var hann þaðan í frá konungur Danmerkur og konungur Íslands. Stjórnarathafnir hans á Íslandi höfðu því ekkert með stöðu hans í Danmörku að gera, þótt auðvitað væri staða hans á Íslandi reist á sögulegum grunni í danska konungsríkinu.

Oft heyrist því haldið fram, meira að segja af sagnfræðingum, að Danir hafi stjórnað utanríkismálum Íslendinga áfram eftir 1. des. 1918. Hið rétta er, að þeir fóru með framkvæmd íslendskra utanríkismála í umboði Íslendinga. Því til staðfestingar komu Íslendingar sér upp sendiráði í Kaupmannahöfn árið 1920. Það hefðu þeir auðvitað ekki getað gert, nema vegna þess, að utanríkismálin voru í raun í þeirra höndum, enda þótt enginn hafi verið utanríkisráðherrann.

Í Morgunblaðinu í dag er athugasemd frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra við skrif í Staksteinum blaðsins varðandi framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þar gæti þess misskilnings, sem greint er frá hér að ofan. Verður það að teljast svolítið klént, bæði í ljósi þess embættis, sem hún gegnir, sem og hins, að hún er sagnfræðingur að mennt.

Ég ætla ekki að fara að blanda mér í deilur um það, hvort við eigum að sækjast eftir setu í Öryggisráðinu eður ei. Hitt er ljóst, að ráðið kemur gjarnan að tilraunum til lausnar á flóknum vandamálum í samskiptum þjóða og þjóðabrota. Þar reynir á þekkingu á grundvallaratriðum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband