Lítið atvik úr bæjarlífinu

Í dag brá ég mér vestur yfir heiðina til Reykjavíkur.  Frábært veður í bænum, eins og reyndar fyrir austan.  Ég var á rölti um bæinn og sem ég gekk austur Leifsgötu og að garðinum þar sem jarnsmiðurinn hans Ásmundar Sveinssonar hamrar járnið, sé ég hvar maður situr þar í tröppunum og er að drekka bjór.  Hann er með bakpoka við hlið sér og plastpoka úr fríhöfninni.  Maðurinn kallar á mig og talar bjagaða sænsku.  Reynist vera Rússi, en sænskur ríkisborgari.  Spyr hvar hann geti fengið vinnu og ódýra gistingu.  Ég bendi honum á gistihús við Snorrabrautina og segi honum að hafa samband við Eflingu varðandi vinnu.  Færi nafn stéttarfélagsins fyrir hann í vasabók, sem hann réttir mér.

„Hvernig vinnu er hægt að fá hér"? spyr Rússinn, sem reyndar kom til landsins í dag.  Ég segi honum, að það sé helst að fá eitthvað að gera á veitingahúsum, í byggingavinnu eða fiskvinnu úti á landi.  Honum líst ekkert á að vinna í veitingahúsi.  Segist vera kominn til Íslands til að hefja nýtt líf.  Vanur fiskvinnu frá Rússlandi, segir hann.  „Í nefinu á mér ilmar fiskur eins og Chanel 5", bætir hann við til skýringar.  Og hefur ekkert á móti byggingavinnu.  Við kvöddumst með handabandi.  Þegar ég hafði gengið nokkur skref frá honum, kallaði hann til mín og spurði, hvort ég reykti.  Ég sagði sem satt var, að það gerði ég ekki.  „Allt í lagi, þú gefur þá vini þínum sígaretturnar", kallaði hann til mín og henti til mín sígarettupakka.

„Skyldi þessi náungi vera alvarleg ógn gegn íslenskri menningu?" hugsaði ég með mér og gekk yfir Snorrabrautina í átt að Klambratúni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Pjetur nú geturðu boðið nágranna okkar og vini Óskari Helga sígarettu, af framandi tegund í ofanálag, næst þegar hann heimsækir þig.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 14.8.2007 kl. 20:29

2 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Mæltu manna heilastur, ég kom við hjá honum í dag og gaf honum pakkann.

Pjetur Hafstein Lárusson, 14.8.2007 kl. 21:59

3 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Hann hefur verið alsæll með þig.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 15.8.2007 kl. 22:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband