Ljóð tveggja tíma

Það er ekki sér íslenskt fyrirbæri, að föðurlandið verði skáldum að yrkisefni. Eðlilega leitar þetta yrkisefni oft á hugann, ekki síst þegar skádlin dvelja meðal erlendra þjóða, um lengri eða skemmri tíma. Hugblær slíkra ljóða verður oft alúðlegri, eftir því sem viðkomandi skáld hefur dvalið lengur fjarri landi sínu. Frægasta ljóð þessarar gerðar á íslenskri tungu, er án efa ljóð Jónasar Hallgrímssonar, „Ég bið að heilsa". Fegurð er afstætt hugtak, jafnt í skáldskap sem öðru. En sjálfur þekki ég ekki mörg ljóð fegurri, ef þá nokkurt. Til gamans má geta þess, að þetta ljóð Jónasar er fyrsta íslenska sonnettan.

Fyrir þá, sem ekki hafa ljóð Jónasar við hendina, læt ég sonnettuna fylgja hér:

 

Ég bið að heilsa

 

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum.

Á sjónum allar bárur smáar rísa

og flykkjast heim að fögru landi ísa,

að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

 

Ó, heilsið öllum heima rómi blíðum

um hæð og sund í drottins ást og friði.

Kyssið þið, bárur, bát á fiskimiði.

Blásið þið, vindar, hlýtt á kinnum fríðum.

 

Vorboðinn ljúfi, fuglinn trús, sem fer

með fjaðrabliki háa vegaleysu

í sumardal að kveða kvæðin þín!

Heilsaðu einkum, ef að fyrir ber

engil með húfu og rauðan skúf, í peysu.

Þröstur minn góður! Það er stúlkan mín.

 

Því verður tæpast haldið fram með réttu, að mikil líkindi séu með Jónasi Hallgrímssyni og Steini Steinarr, utan það eitt, að báðum var tamt, að túlka skoðanir sínar og tilfinningar í skáldskap. Og þó! Báðir lögðu sitt af mörkum, til að ryðja skáldskapnum nýja vegi. Og báðir sáust lítt fyrir, þegar þeir gagnrýndu það, sem þeim þótti miður fara í skáldskap annarra, samanber ritgerð Jónasar um rímur Sigurðar Breiðfjörðs og skrif Steins um Kristmann Guðmundsson, þótt þar hafi skáldið reyndar farið út fyrir mörk hefðbundinnar bókmenntaumræðu. En það er önnur saga.

Jónas bjó sem kunnugt er árum saman í Kaupmannahöfn, en um þá fögru borg hefur einmitt verið sagt, að hvergi hafi Ísland verið elskað heitar, en einmitt þar. Og má sjálfsagt til sanns vegar færa. Steinn Steinarr var hins vegar vestfirskur götumælingamaður og kaffihúsaspekúlant í henni Reykjavík. Þó brá hann stundum undir sig betri fætinum og gerðist sigldur maður, eins og þeir voru þá kallaðir, sem brugðu sér út fyrir pollinn. Það var við lok slíkrar ferðar, þann 26. mai árið 1954, sem Steinn orti ljóðið „Landsýn".

 

Landsýn

 

Ísland, minn draumur, mín þjáning, mín þrá,

mitt þróttleysi og viðnám í senn.

Þessi vængjaða auðn með sín víðerni blá,

hún vakir og lifir þó enn.

 

Sjá, hér er minn staður, mitt líf og mitt lán,

og ég lýt þér, mín ætt og mín þjóð.

Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán,

mín skömm og mín tár og mitt blóð.

 

Ekki get ég sagt, að gæði þessa ljóðs felist í fegurðinni. En mergjað er það, enda umbúðalaust. Ekki er úr vegi, að bera það saman við ljóð Jónasar hér að ofan. „Ég bið að heilsa" er ort við upphaf sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Þar er vor í lofti og sumars að vænta. „Landsýn" er hins vegar ort, þegar sjálfstæðisbaráttan hafði snúist upp í andhverfu sína; Amerískir dátar sprönguðu hér um götur og torg undir því yfirskyni, að verið væri að verja þjóðina gegn óvini, sem hún hafði aldrei séð. Naprir haustvindar gnauðuðu. Og það hefur aldrei vafist fyrir Íslendingum, að vetur fylgir hausti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband