Nokkur orð um Geir Kristjánsson og ljóðaþýðing eftir hann.

Um daginn fjallaði ég lítillega um þann ágæta hagyrðing Kristján Ólason.  Nú er röðin komin að syni hans, Geir Kristjánssyni, rithöfundi og þýðanda, en hann fæddist árið 1923 og lést 1991. 

Geir var ekki afkastamikill sem rithöfundur hvað varðaði smásagnagerð.  Á því sviði gaf hann aðeins út eitt smásagnasafn, „Stofnunin" árið 1956.  Í því eru ellefu smásögur.  En þótt þetta sé óneitanlega ekki mikið safn að vöxtum, þá eru gæðin slík, að fram hjá þessu riti verður ekki horft, sé litið yfir það besta í íslenskum prósa á síðustu öld.  Þess má einnig geta að hann skrifaði nokkur útvarpsleikrit. Þeirra þekktast er "Snjómokstur".

Ekki er ætlunin að gera hér grein fyrir ritstörfum Geirs Kristjánssonar.  Þess í stað vísa ég á heildarsafn hans, sem Mál og menning gaf út árið 2001 og inngang þeirrar bókar „Fljúgandi raunsæi á mótsagnir lífsins" eftir Þorgeir Þorgeirson rithöfund. 

Geir lærði rússnesku við háskólann í Uppsölum á árunum eftir síðari heimsstyrjöld.  Þýddi hann því eðlilega mikið úr því máli, sérstaklega ljóð, en óhætt er að telja hann í hópi meistara íslenskra ljóðaþýðanda.  Til gamans ætla ég að birta hér eina af þýðingum hans.  Ljóðið er eftir rússnesku skáldkonuna Marínu Tsvétajevu, en þar yrkir hún um landa sinn, skáldið Alexander Blok og heitir ljóðið einfaldlega Blok.

 

Nafn þitt er fugl í hendi,

nafn þitt er ísmoli á tungu.

Ein einasta hreyfing vara.

Nafn þitt fimm stafir.

Bolti, gripinn á lofti.

Silfurbjalla í munni.

 

Steinn, kastað í kyrra tjörn,

snöktir einsog hrópað sé á þig.

 

Í léttum hófadyn næturinnar

lætur nafn þitt hátt.

Og smellandi skammbyssugikkur

kallar það fram í gagnaugu okkar.

 

Nafn þitt - æ, þetta er ekki hægt!

Nafn þitt er koss á lukta brá,

á fíngerðan ískulda óhreyfanlegra augnaloka.

Nafn þitt er koss á hvítan snjó.

Sopi af bláu jökulköldu uppsprettuvatni.

Nafni þínu fylgir djúpur svefn.

 

Ljóð þetta var ort árið 1916.  Þýðingin birtist í síðustu bók Geirs, „Dimmur söngur úr sefi", sem Bókmenntafélagið Hringskuggar gaf út á dánarári Geirs.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Kristinsson

Geir var frábær þýðandi - gott að þú skulir minna á hann hér! Annað gott safn ljóðaþýðinga eftir hann er Undir hælum dansara, sem kom út 1988. Eins og Dimmur söngur úr sefi eru það allt þýðingar úr rússnesku. Það eina sem ég hefði kannski út hann að setja er að stundum virtist hann velja ljóð til þýðingar af hugmyndafræðilegum ástæðum fremur en listrænum. Sbr. t.d. sum ljóðanna sem hann þýddi eftir Évtúsjenkó. - Þetta ljóð eftir Tsvetajevu er annars fyrsta ljóðið úr (minnir mig) þrettán ljóða bálki sem hún orti um Blok.

Baldur Kristinsson, 28.7.2007 kl. 23:03

2 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Heill og sæll Baldur og þakka þér fyrir athugasemdina.  Ég verð þó að láta þess getið, að það er misskilningur, að í Dimmum söng úr sefi, séu aðeins þýðingar úr rússnesku.  Þar er einnig þýðingar á ljóðum eftir Garcia Lorca, Rafael Alberti, Eluard, Mariu Luise Kaschnitz og Ezra gamla Pound.  Ég get heldur ekki verið sammála því, að Geir hafi látið hugmyndafræði (og þá væntanlega sósíalska) ráða vali á ljóðum til þýðinga.  Þvert á móti; hann þýðir mjög gjarnan ljóð skálda, sem voru í andstöðu við stjórnarherranna í Kreml.

Ég brá mér inn á heimasíðu þína og var ekki svikinn af þeirri hnýsni.  Ég hef nefnilega mikið dálæti á ljóðum frá Tasng-tímabilinu.  Reyndar hef ég fengist nokkuð við þýðingr á þeim og birtust þær í bók minni, Austan mána, ljóð frá Kína og Japan árið 2003.  Útgefandi Salka.  Þar er m.a. þýðing á þessu ljóði, sem þú ert að fást við.  Einnig langar mig til að benda þér á bók Steingríms Gauta Kristjánssonar, Austurljóð, frá árinu 1996.  Þá get ég ekki á mér setið að benda þér á þann vestræna þýðanda kínverskra ljóða og reyndar einnig japanskra, sem ég hef mest dálæti á, en það er Norðmaðurinn Arne Dörumgaard (f. 1923).  Komdu við á Landsbókasafninu.

Eitt ráð að lokum.  Þýðingar eru ekki aðeins nákvæmnisverk í orðavali; þær eru flutningur á hugblæ frá einu tungumáli til annars, milli tíma og menningarheima, o.s.frv.  Það er þess vegna, sem hver ljóðaþýðing er í raun og veru nýtt ljóð.  En þetta veistu auðvitað.

Pjetur Hafstein Lárusson, 29.7.2007 kl. 08:37

3 Smámynd: Baldur Kristinsson

Takk fyrir þessar ábendingar, Pjetur. Verð að skoða þýðinguna þína við tækifæri - og líka kynna mér Dørumgaard, sem ég hef ekki heyrt um áður.

Baldur Kristinsson, 29.7.2007 kl. 16:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband