25.7.2007 | 01:05
Gluggað í gömlu vísnasafni
Vafalaust þekkja flestir þeirra, sem áhuga hafa á sögu Reykjavíkur til verka Árna Óla. Hann ritstýrði Lesbók Morgunblaðsins um árabil, en skrifaði auk þess merkilega þætti um sögu Reykjavíkur og reyndar um fleiri efni. Nafn bróðursonar Árna Óla er ekki síður þekkt á sviði hins ritaða orðs, þótt vettfangurinn væri annar. Hér á ég við Geir Kristjánsson rithöfund. Hann var einn af bestu ljóðaþýðendum þjóðarinnar á síðustu öld, auk þess sem hann þýddi leikrit, m.a. fyrir þjóðleikhúsið. Þá gaf hann út smásagnasafnið Stofnunin" árið 1956 og tók sér þar með stöðu í röð fremstu módernísku rithöfunda landsins. Geir lést árið 1991. Nokkrum árum síðar kom út heildarútgáfa verka hans, þótt þar sé því miður ekki að finna allar leikritaþýðingar hans. En það er önnur saga.
Já, verk þeirra frænda, Árna Óla og Geirs Kristjánssonar lifa enn. Aftur á móti er ég ekki viss um, að margir muni föður Geirs, Kristján Ólason. Þótti hann þó með snjöllustu hagyrðingum landsins á sínum tíma. Vísnabók hans, Ferhenda" kom út hjá Menningarsjóði árið 1963. Þar er að finna margar perlur sem sýna, hversu erfitt getur reynst að greina milli skálds og hagyrðings; og raunar óþörf iðja á stundum.
Um leið og ég hvet fólk til að verða sér úti um þetta frábæra vísnasafn á næsta bókasafni, tek ég mér það bessaleyfi, að birta nokkrar vísur úr því.
Fjasað um smámuni -- þagað um hitt
Gust og veður gjarnt er mér
að gera af smáum skeinum,
en dýpstu sárin sem ég ber
sýni ég aldrei neinum.
Vinátta
Maður skyldi muna það;
morgundögg í hlíðum
getur seinna orðið að
aftaks manndrápshríðum.
Hvað sérðu?
Sérðu öll þín sumarblóm,
sem að prýddu dalinn,
troðin haustsins héluskóm
hnigin föl í valinn?
Sælir eru einfaldir
Ekki sakar að ég sést
eins og glópur standa.
Fyrirheitið fengu bezt
fátækir í anda.
Blindur er hver í sinni sök
Ólánið sem elti mig
orðið hefði minna,
gæti maður sjálfan sig
séð með augum hinna.
Að lokum er hér vísa, sem Kristján nefnir Eitt er nauðsynlegt".
Bjargar auður, eða hvað,
öl og brauð í ranni,
kulda dauðans komnum að
kærleikssnauðum manni?
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
þakka þér fyrir þetta
María Kristjánsdóttir, 25.7.2007 kl. 07:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.