Verðlagskönnun Alþýðusambandsins

Má vera, að það sé lítt til fyrirmyndar, að skrifa um það, sem maður ekki skilur, en vonandi getur einhver varpað ljósi á það mál, sem mér liggur á hjarta.  Þannig er, að fyrir skömmu birti A.S.Í. niðurstöðu verðlagskönnunar.  Bendir hún til þess, að almenningur hafi ekki sem skyldi notið góðs að aðgerðum ríkisstjórnarinnar, sem þó áttu að lækka matarverð.  Auk þess kom í ljós, að nokkuð er þetta misjafnt eftir því, hvaða verslanir eiga í hlut.  Bregður þá svo undarlega við, að Samtök verslunar og þjónustu reka upp ramakvein og mótmæla því kröftulega, að A.S.Í. framkvæmi slíkar kannanir.  Og nú eru forráðamenn einstakra verslunarhringa farnir að taka undir sönginn þann.  Krefjast þeir þess, að Hagstofan annist verðlagskannanir.

Nú veit ég ekki betur, en að Alþýðusamband Íslands sé stærsta alþýðuhreyfing landsins.  Það er beinlínis hlutverk þess, að gera allt, sem í þess valdi stendur, til að bæta kjör almennings.  Eftirlit með verði á vöru og þjónustu er óaðskiljanlegur hluti slíkrar baráttu.  Hitt er svo annað mál, að verðlagskannanir hljóta óhjákvæmilega að vekja deilur.  Krafan um að Hagstofan taki þetta verk að sér er því út í hött.  Hvernig á hún að fara að því, að leiðbeina fólki um það, hvar ódýrast sé að versla?  Verðlagseftirlit er í eðli sínu pólitísk aðgerð.  Vissulega getur Hagstofan rannsakað, hvort slík aðgerð beri árangur.  En hún getur ekki verið framkvæmdaraðili á þeim vettvangi.  Það er einfaldlega ekki hennar hlutverk, að standa í því argaþrasi, sem slíku fylgir.

Ekkert er eins líklegt til að lækka vöruverð og almenn vitund fólks um þróun þess og það, hvar hagkvæmast er að versla.  Almannasamtök á borð við Alþýðusambandið og Neytendasamtökin eru sjálfkjörnir aðilar til að afla nauðsynlegrar þekkinagar á þessu sviði og miðla henni til almennings.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband