13.7.2007 | 13:36
Sovéthugsun á Keflavíkurflugvelli
Fróðir menn segja, að það hafi verið gaman að vera í kommúnístaflokki Sovétríkjanna hér á árum áður, og þeim mun skemmtilegra, eftir því, sem maður hafði krifrað hærra upp metorðastigann. Þeir, sem voru komir upp í efstu lögin, þurftu t.d. ekki einu sinni að aka eftir sömu akgreinum og sauðsvartur almúginn. Ekki sko aldeilis, þeir höfðu sérstakar akgreinar út af fyrir sig. Var þó umferðin ekki mikil, því menn þurftu að bíða þess í mörg ár, að fá að kaupa bíl, það er að segja þeir, sem ekki voru í sérstakri náð.
Nú er verið að innleiða sama kerfi á Íslandi, reyndar ekki á vegum landsins, enn sem komið er, heldur í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Þar er nú verið að gera s.k. tilraun, sem gengur út á það, að farþegar á Saga-klass og aðrir vildarfarþegar, komast í gegnum vopnaleit með hraði, meðan sauðsvartur almúginn verður að gera sér biðina að góðu. Að sögn er þetta gert að beiðni Flugfélags Íslands, sem reyndar ber nú enskt nafn, hvert ég hirði ekki um að færa á blað. Það virðist hafa gleymst, að vopnaeftirlitið er á vegum ríkisins og því með öllu óviðkomandi einkaaðilum, hvort heldur er um að ræða einstaklinga eða fyrirtæki.
Ástæða er til að ætla, að dómsmálaráðherra bindi skjótan endi á þessa vitleysu. Ekki veitir af, áður en hún breiðist út til annarra þátta þjóðfélagsins.
Athugasemdir
sauðsvarti almúginn sem ferðast með Iceland Express fær nú svipaða meðhöndlun, samkv. þessari frétt
Finnur Ólafsson Thorlacius, 13.7.2007 kl. 15:23
Það er sjálfsagt að þeir sem nenna að vinna og hala inn milljarða fyrir þjóðarbúið, fái forgang á þá sem skrifa léleg ljóð og hanga í sjoppum.
Mellan í Bústaðahverfinu (IP-tala skráð) 14.7.2007 kl. 11:01
Það er fátt ánægjulegra fyrir ljóðskáld en að vita til þess að það er einhver, sem les ljóðin þeirra, jafnvel þótt að það sé einungis sauðsvartur almúginn að drepa tímann í biðröðinni í Leifsstöð eða á klósettinu á súlustað.
Þörf athugasemd hjá þér Pétur!
Júlíus Valsson, 18.7.2007 kl. 19:24
Eins gott að einhverjir skrifi "léleg" ljóð´......annars hefðum við ekki þessi "góðu"
Sverrir Einarsson, 21.7.2007 kl. 09:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.