10.7.2007 | 22:37
Skáld, sem ekki má gleymast
Skáldið Jónas Svafár lést fyrir nokkrum árum í hárri elli og raunar undarlega hárri, miðað við lifnaðinn. Honum voru nefnilega breiðstræti tilverunnar tamari undir fæti en sá hinn þröngi vegur, sem Biblían segir okkur, að vissara sé að ganga. Bakkus var lífsförunautur hans. En þótt ýmsir ágætis menn breytist í örgustu svola og ruddamenni í þjónustu sinni við þann vafasama konung, þá átti það ekki við um Jónas Svafár. Hann var alla tíð hið stakasta prúðmenni.
En Jónas Svafár var ekki aðeins prúðmenni svo af bar, hann var einnig eitt af okkar frumlegustu skáldum. Hann var af kynslóð atómskáldanna sem svo eru nefnd. Bókmenntafræðingum hættir til, að telja hann ekki með í þeim hópi, láta sér nægja, að nefna þá Stefán Hörð, Sigfús Daðason, Einar Braga, Jón Óskar og Hannes Sigfússon. Það er mikill miskilningur. Það kastar ekki nokkurri rýrð á þessi ágætu skáld, þótt nafns Jónasar Svafárs sé getið í sambandi við þá ljóðagerð, sem kennd er við atómið.
Skáldskapur Jónasar Svafárs á sér enga hliðstæðu í íslenskum bókmenntum. Sama gildir um þær sérkennilegu myndir, sem hann teiknaði við ljóðin; þær eru einstakar.
Til gamans læt ég hér fljóta með eitt af ljóðum skáldsins, en það heitir Æska og birtist í bókinni Það blæðir úr morgunsárinu og síðar, árið 1968 í ljóðasafninu Klettabelti fjallkonunnar:
æskuástir með brunnin bál
brennimerkja mín leyndarmál
tungur hugans tala lengi
titrandi við hjartastrengi
í trúnni á tregans höfuðborg
ég treysti þér heita ástarsorg
Ég mæli með ferð á bókasafnið.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Ég minnist þess úr skóla fyrir óteljandi árum síðan, þegar íslenskukennarinn okkar var að segja okkur frá Jónasi. Hann sagði okkur að Jónas hefði tekið sér nafnið Svafár vegna þess að hann hafði sofið í ár og vaknað sem skáld eftir þann langa svefn.
Gísli Sigurðsson, 11.7.2007 kl. 09:55
Tek heilshugar undir með þér, Pjetur. Heyrði líka sömu sögu og Gísli, en skiptir það máli?
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 11.7.2007 kl. 11:32
Jónasi Svafár var tamt að sveipa sig huliðshjúpi. Þannig var það nokkuð á huldu, hvernig nafnið Svafár var til komið. Eins og þið vitið, var hann oft útigangsmaður, en slíkir menn eiga ekki víða höfði sínu að halla. Ein sagan varðandi nafnið Svafár er sú, að hann hafi í eitt ár eða svo, fengið að sofa í kyndiklefa hjá ónefndum ættingja og því tekið sér þetta nafn. Ekki vitlausari skýring en hver önnur.
Bestu þakkir fyrir viðbrögðin.
Pjetur Hafstein Lárusson, 11.7.2007 kl. 22:51
Kynntist þessum merka og dula manni í kringum 1990. Hann var hæglátur og dulur en undir kraumaði mikil kímni og hrukku mörg gullkorn af vörum hans. Í mínum augum var hann ekki róni í venjulegum skilningi, heldur var hann maður sem hafði sagt sig úr sakramennti samfélagsins og hélt sig í jaðri þess. Sá hann aldrei ofurölvi og bullandi, sóðalegan og sorglegan. Hann var hljóður í sínum hugrenningum eins og hann væri að horfa á amstur fólksins´með augum gests í dýragarði. Hann var abstrakt og minimal. Bar í anda höfuð og herðar yfir mörg okkar tylliskáld.
Jón Steinar Ragnarsson, 13.7.2007 kl. 00:53
Sammála þér Jón Steinar, nema þetta með sorgina. Hana bar Jónas Svafár á báðum herðum. En hann bar hana ekki á torg. Sem aftur minnir mig á það, að ólíkt öðrum s.k. rónum, minnist ég þess ekki, að hafa séð hann á ferli í sjálfum Miðbænum. Í þeim efnum sem öðrum, hélt hann sig til hlés. Ég hitt hann og fí næsta nágrenni Kvosarinna, í Þingholtunum eða á Skólavörðuholtinu. Þarna var meira næði en niðri í bæ.
Pjetur Hafstein Lárusson, 13.7.2007 kl. 17:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.