6.7.2007 | 19:16
Á að einkavæða orkufyrirtækin?
Undanfarið hafa farið fram nokkrar viðræður í þjóðfélaginu um hugsanlega sölu orkufyrirtækja til einkaaðila. Sýnist þar sitt hverjum, sem von er. Allir geta þó vonandi verið sammála um það, að orkufyrirtækin eru ekki almenn fyrirtæki, heldur grundvallarfyrirtæki. Notkun orku í nútímasamfélagi er nefnilega ekki val, heldur nauðsyn.
Ætla má, að orkufyrirtæki í eigu einkaaðila, leggi höfuðáherslu á hagnað hluthafa, en ekki öryggismál, svo dæmi sé tekið. Þetta sýndi sig vel í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum, þegar fárviðri gekk yfir austurströnd þeirra. Í ljós kom, að orkuver í opinberri eigu stóðu illviðrið mun betur af sér en hin, sem einkaaðilar ráku. Hver er skýringin?
Í Spegli Ríkisútvarpsins í gærkvöldi var rætt við Pál Hannesson, alþjóðafulltrúa B.S.R.B. og færði hann sterk rök gegn einkarekstri orkufyrirtækja. Í kvöld var svo rætt við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Var hann, sem vænta mátti, á öndverðum meiði. Máli sínu til stuðnings benti hann m.a. á, að einkarekið orkufyrirtæki færi ekki að selja stóriðjufyrirtæki orkuna, nema á hæsta mögulega verði. Það var svolítið undarlegt, að fréttamaður skyldi ekki spyrja Vilhjálm, hvað gerast mundi, ef stóriðjufyrirtæki einfaldlega keyptu orkufyrirtækin. Þessi möguleiki er vissulega til staðar, ef farið verður út í einkavæðingu orkuframleiðslunnar í landinu. Hætt er nú við, að við Íslendingar þyrftum að vera nokkuð bænheitir, ef við vildum forðast tjón af slíku.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.