Um stofnun fyrir eiturlyfjasjúklinga á Njálsgötu

Það eru grimm örlög, að missa tök á lífi sínu sökum eiturlyfjaneyslu og vissulega ber að hjálpa því fólki, sem í þá ógæfu ratar.  Það er hins vegar hvorki sama hvar né hvernig það er gert.  Eðli málsins samkvæmt, leitar þetta fólk í miðbæinn.  Þannig er það í öllum borgum.  Þegar reisa á stofnanir fyrir  fólk, sem enn neytir eiturlyfja, er því fyrsta skilyrðið það, að þær séu staðsettar sem lengst frá miðbænum og helst utan borgarmarkanna.  Þegar þetta ógæfufólk hefur náð tökum á lífi sínu, má aftur á móti fara að huga að því, að finna því samastað, þar sem það samlagast venjulegu mannlífi.

Nú stendur til að opna slíka stofnun á Njálsgötu, sem er í hjarta borgarinnar.  Félagsmálayfirvöld  segja, að ekki sé um stofnun að ræða, heldur heimili.  Fullyrðingar í þá veru fá þó tæpast staðist, enda verður staðurinn vaktaður allan sólarhringinn og náin tengsl höfð við lögreglu.  Heimilishættir undir opinberu eftirliti, þættu nokkrum tíðindum sæta hjá flestum.  Ég nefni þetta, til að menn geri sér ljóst, að það er nauðsynlegt, í þessu tilfelli sem öðrum, að hlutirnir séu kallaðir sínum réttu nöfnum.

Félagsmálayfirvöld í Reykjavík fullyrða, að faglega hafi verið unnið að undirbúningi þessa máls.  Má vera, en þá ber að gæta þess að orðið "faglegt" er afstætt. Sá þekkir bit sverðsins, sem örin ber, ekki hinn, sem hefur lesið um þau á bókum.

Ég get vel skilið áhyggjur íbúa á Njálsgötu vegna þessa máls.  Þeir benda m.a. á, að þarna er barnaheimili á næstu grösum.  Hver ætlar að tryggja það, að sprautunálar berist ekki þangað?

Ég hef alltaf verið hlyntur því, að fólk sem ólíkastar gerðar búi hvert innan um annað.  Það auðgar mannlífið.  Það er líka varasamt, þegar fólk heldur, að hægt sé að kaupa sig frá mannlegum örlögum í gegnum fasteignasölu.  Ef fólk er það veikt að það þarfnast vistunar á stofnun verða menn að horfast í augu við það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Helgi Gunnlaugsson

Þetta uppistand vegna þessa heimilis er á vanþekkingu byggt.  Þér finnst að svona heimili eigi að vera staðsett sem lengst frá miðbænum og helst uppi í sveit.  Á þessu heimili (ef þetta búsetumódel er byggt á sömu forsendum og þess sem er staðsett á Miklubraut 20) verður íbúunum leyft að vera í neyslu, þó ekki inni á heimilinu sjálfu, en þeim verður leyft að koma inn undir áhrifum.  Þessvegna er ekkert áunnið með því að hafa heimilið staðsett í úthverfum borgarinnar.  Það myndi þvert á móti skapa fleiri vandamál, því eins og þú bendir réttilega á, þá sækja þessir menn í miðbæinn.  Auk þess er öll sú þjónusta sem þessir menn nýta sér, í miðbænum, þeir barir sem þeir fá að stunda, Kaffistofa Samhjálpar, Vin o.fl. 

Heimilið að Miklubraut 20 hefur nú verið starfrækt í rétt rúm 5 ár.  Og stofnun er og verður það heimili aldrei.  Hinsvegar er nauðsynlegt að hafa starfsmenn þar á sólarhringsvakt.  Ástæður þess væri of langt að telja upp hér.  Heimilið á Miklubraut er í góðri samvinnu við bæði geðdeild LHS og Velferðarsvið Reykjavíkur.  Það er ótrúlegt, hvað gerist, þegar menn, sem hafa verið á götunni jafnvel árum saman, fá loksins öruggt húsaskjól, reglulegar máltíðir o.fl.  Svo ekki sé talað um, þegar sumir þeirra fá loksins greiningu hjá geðlækni og fá þau lyf sem þeir þurfa.  Þvílík breyting.  M.a.s. þó þeir séu í neyslu, þá batna lífsgæði þeirra og fjölskyldna þeirra til muna.  Neyslan skánar m.a.s.

Á þeim 5 árum sem heimilið á Miklubraut hefur starfað, hefur aldrei komið kvörtun frá nágrönnum.  Hvorki vegna sprautunála né nokkurs annars ónæðis vegna íbúa heimilisins.

Ég held því að fólk ætti að róa sig aðeins og gefa þessu séns.   

Árni Helgi Gunnlaugsson, 6.7.2007 kl. 02:04

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Reynslan af skýlinu (gistiheimili) fyrir utangarðsmenn í Ingólfsstræti hefur sýnt að þeim líkar ekki að pissa fyrir utan dyrnar heima hjá sér, gera það helst annar staðar, og engin af nágrönnunum kvartar. Ég er sannarlega sammála þér með að þetta er bara spurning um að íbúarnir rói sig og hætti að vera hræddir um að fasteignaverðið dali vegna þessa. Ég man raunar eftir mótmælum íbúa á götu einni á seltjarnarnesi fyrir nær tuttugu árum þegar átti að stofna þar sambýli fyrir fatlaða. Ég hef ekki heyrt í þeim íbúum síðan að það var stofnað. Hefur einhver annar gert það?

Anna Karlsdóttir, 6.7.2007 kl. 16:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband