4.7.2007 | 11:27
Smá samanburður á frú Akureyri og ungfrú Reykjavík
Ég eyddi júnímánuði á Akureyri. Ég verð að viðurkenna, að ég er ekki alveg hlutlaust gagnvart þeim góða stað, því þar man ég fyrst eftir mér. Hins vegar hef ég að mestu eytt ævinni í Reykjavík, ef undan er skilinn s.l. áratugur og búseta meðal norrænna frænda. Auk þess á ég ættir að rekja, að stórum hluta til Reykjavíkur, allt aftur til Innréttinga Skúla fógeta. Ég get því með sanni sagt, að ég sé bæði norðanmaður og sunnan. Því ætti ég að vera sæmilega hlutlaus í samanburði á Akureyri og Reykjavík.
Nýlega skrifaði ég hér á bloggsíðunni dálítið spjall um Reykjavík samtímans og fór ekki fögrum orðum um staðinn. En þar var ég að fjalla um skipulagsmálin og það, hvernig þau hafa frá lokum síðari heimsstyrjaldar eða svo, gert Reykjavík að hálf amerískum bastarði. En þetta er yfirborðið. Undir því leynist undarleg þrá ungfrú Reykjavíkur til að vera eitthvað annað en hún er.
Ungfrú Reykjavík er borg á gelgjuskeiði. Og eins og títt er um fólk á því æviskeiði, veit hún ekki almennilega í hvorn fótinn hún á að stíga. Í raun og veru er hún enn þá sama gamla sjávarþorpið í bland við verslun og opinberan rekstur og hún hefur verið undan farna eina og hálfa öld. En hana langar að vera stór. Þess vegna treður hún baðmull í brjóstahaldarann. Þessi baðmull er gerð úr kaffihúsum, galleríum og ýmsu öðru, sem einkennir borgir. Og nú er verið að tjasla saman stærsta baðmullarhnoðranum; tónlistahúsinu.
Auðvitað væri þetta allt gott og blessað, nema hvað það er einhvern veginn eins og innistæðuna vanti. Ég hef grun um, að kaffihúsin séu ekki sá vettvangur frjórra umræðna í listum, heimspeki og stjórnmálum, sem slíkir staðir eru í alvöru borgum. Galleríin eru yfirfull af þokkalegri handavinnu, sem bíður þess að komast prúðbúin í ramma upp á vegg hjá bankastrákum, sem borga vel. Já, og tónlistahúsið væntanlega; kemur starfsemi þess ekki til með að líða fyrir það, að geti landi rekið upp sæmilega skipulagt hljóð, er hann umsvifalaust tilnefndur snillingur á heimsmælikvarða? Með þessu er ég hvorki að gagnrýna myndlist, tónlist, né nokkra aðra listgrein; ég er að eins að benda á það, að til þess að geta skapað, þarf fólk að vita, hvar það stendur. Og það vita menn ekki í Reykjavík. Hún er nefnilega orðin að leiksviði. Og á slíkum stöðum velja menn sér ekki hlutverk, þeir falla inn í þau. Þess vegna er ungfrú Reykjavík í raun og veru ósköp einmana og umkomulaus stúlka, þegar öllu er á botninn hvolft.
Akureyri er aftur á móti ekkert annað en það, sem hún sýnist vera. Hún er evrópskur bær. Og sá bær stendur stöðugur á sínum grunni. Í sjálfu sér er ekkert spennandi við Akureyri, en það er einmitt vegna þess, að bærinn læst ekki vera neitt annað en hann er. Meðan ungfrú Reykjavík er ístöðulaus krakki, er frú Akureyri stöðuglynd kona á virðulegum aldri. Svo má auðvitað ekki gleyma því, að bærinn sjálfur er mjög fagur, að nú ekki sé talað um náttúrulega umgjörð hans. Þar stenst Reykjavík engan samjöfnuð.
En vonandi á Reykjavík eftir að þroskast. Ég spái því, að eftir svo sem eina öld, verði hún orðin að settlegri evrópskri smáborg og roðni dulítið feimnislega í vöngum þegar hún minnist gamalla drauma um að verða eins og London, París og Róm.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:07 | Facebook
Athugasemdir
Skemmtilegar pælingar og er ég að mörgu leyti sammála, verandi Akureyringur sem búsettur hefur verið í Borginni undanfarin ár.
Varðandi Akureyri finnst mér reyndar þar á bæ eins og menn séu að apa upp eftir Reykjavík. Kaffihúsin eru þar, listasafnið reynir og nú eru menn að byggja menningarhús þar. Sé ekki þörf fyrir menningarhús í Borginni, hver er þörfin á Ak?
Svo er stundum unglingurinn miklu skemmtilegri og uppátækjasamari en miðaldra kelling sem heldur fast í sínar venjur.......
Sigurður (IP-tala skráð) 4.7.2007 kl. 16:28
Hljómar afar jákvæður - og hittir okkur sjálfsagt í hjartastað sem komum hingað ung í skóla og höfum síðan helst ekki verið annars staðar nema tíma og tíma.
Flosi Ólafsson hafði þó eitthvað við Akureyri að athuga (vitna eftir minni)´
Frá Akureyri er um það bil,
ekki neins að sakna.
Þar er fallaget þangað til,
þorspbúarnir vakna.
Höfum endilega gaman af þessu - en gefum slagorði bæjarins endilega innihald - sem er ekki bara "íhaldssamt og óbreytt ástand" - það gengur ekki fyrir lífsgæði nútímans.
Benedikt Sig
Bensi
Benedikt Sigurðarson, 4.7.2007 kl. 22:38
... Helgi magri á klöppunum er nú boginn í herðum undan tvíburaturnunum og bráðum fáum við Akureyringar fallegt bílastæði og stórmarkað þar sem nú er iðagrænn knattpsyrnuvöllurinn... enn eru snillingar á ferð norðan heiða...
Brattur, 4.7.2007 kl. 23:17
Við í Reykjavík erum náttúrulega svo nýkomin útúr kartöflukofunum að ekki hægt að ætlast til þess að við stundum vitsmunalegar umræður eins og íbúar stórborga erlendis. Enda tilvera okkar innantóm.
Yfirleitt rymjum við bara og sjúgum kaffið í gegnum sykurmola.
Samt vonar maður að kannski eftir tíu til tuttugu ár þá öðlumst við kannski þá greind að geta rætt um hluti sem menntafólk í smærri borgum eins og t.d. Verona, Lyon og Birmingham talar um.
Hver veit?
Kalli (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 09:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.