Reykjavík; borg á villigötum

Jón Baldvin Hannibalsson hélt því fram, efnislega,  í útvarpinu nú um helgina, að Reykjavík væri orðin að amerísku úthverfaskrímsli með kransæðastíflu.  Með kransæðastíflunni átti hann við samgöngukerfi borgarinnar, sem löngu er gengið sér til húðar.  Það er nokkuð til í þessu hjá mínum gamla lærimeistara úr Hagaskóla.

En hvað skyldi hafa gert Reykjavík af þeim óskapnaði, sem raun ber vitni?  Ýmsir kenna skipulagsleysi um og hafa nokkuð til síns máls.  Fram að síðari heimsstyrjöldinni óx borgin frá götu til götu.  Þegar búið var að byggja austur að þeirri götu, sem nú kallast Snorrabraut, en var þá hluti Hringbrautar, byggðu menn einfaldlega austan götunnar og þar með varð byggðin í Norðurmýri til.  Þannig hafði Reykjavík þróast í grófum dráttum frá því að vera þorp  á árunum 1752 fram að miðri nítjándu öld, þegar hún breyttist í bæ og síðar í litla borg á árunum kringum fyrri heimsstyrjöldina.

Eitt er nokkuð athyglisvert í þessu sambandi.  Eftir að miðstjórnarvaldið tók smám saman að flytjast frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur, gerðust aðfluttir fyrirferðarmenn áberandi í forystuliði bæjarins.  Enda þótt þessir menn hefðu um eða upp úr miðjum aldri sest að í bænum og vildu honum vafalaust allt hið besta, voru þeir í raun sveitamenn og hugsuðu sem slíkir.  Þeir virðast ekki hafa leitt hugann að því, a.m.k. ekki að ráði, að Reykjavík ætti eftir að verða borg.  Sama gilti um sporgöngumenn þeirra.  Glöggt dæmi um afleiðingar þessa, er þegar Guðjón Samúelsson vildi reisa menningarháborg  á Skólavörðuholti, með Háskóla Íslands í öndvegi, þá hlustuðu menn ekki á hann, heldur var Háskólanum holað niður í mýrarfláka sunnan borgarinnar.

Síðari heimsstyrjöldin leiddi til mikillar fjölgunar fólks í Reykjavík og um leið glundroða í skipulagsmálum.  Nú var farið að reisa úthverfi fjarri mannabyggð, svo sem á Laugarnesi og alla leið austur við Klepp og ofan við Elliðarárvog.  Þarna myndaðist menningarfyrirbæri, sem áður var óþekkt á Íslandi og á sér helst hliðstæðu í iðnaðarborgum Englands á tímum iðnbyltingarinnar.  Borgin fylltist af ágætis fólki, sem kom úr sveitum og þekkti því borgarlíf tæpast nema af afspurn. 

Margir eru með það á heilanum, að við Íslendingar séum svo mikil menningarþjóð, án þess það orð hafi verið skilgreint sérstaklega.  Mér skilst, að tala s.k. háskóla sé til marks um þetta.  En sé menningin metin út frá hæfileikum fólks á ákveðnu svæði, til að lifa saman í sæmilegri sátt við umhverfi sitt, hvort heldur hið náttúrulega, eða það, sem talist getur mannanna verk, þá fæ ég ekki séð, að menningarstig okkar sé ýkja hátt.  Reykjavík okkar tíma, er hrópandi dæmi um það.  Hún er, eins og Jón Baldvin réttilega bendir á, amerískur óskapnaður með kransæðastíflu.  Ef menn ætla sér að gera hana að einhverju öðru, þurfa þeir að byrja á því, að umgangast hana með virðingu, bæði fyrir sögu hennar, umhverfi og því fólki, sem hana byggir.  Þannig má ef til vill endurvekja þá evrópsku borg, sem Reykjavík var fram að síðari heimsstyrjöld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að engum hefði dottið í hug árið 1920 að bílar yrðu fjöldaframleidd almenningseign og ég held að engum hafi dottið í hug árið 1950 að það yrði ekki pláss fyrir alla bílana og að gamlir kofar væru einhvers virði.

Skoðaðu skipulagssöguna. Það átti að leggja hraðbraut frá Túngötu og yfir Þingholtin. Það eina sem var framkvæmt var að Uppsalir voru rifnir.

Evrópskir eftirstríðs skipulagsfræðingar reyndu að gera "mistök" en það var bara búið að byggja borgirnar áður en þeir komust að :)

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 17:19

2 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Þetta er nú meiri vitleysan hjá þér. Þú hefur greinilega aldrei komið til Bandaríkjanna og svo virðist sem Jón Baldvin hafi verið eitthvað utan við sig þegar hann dvaldist þar. Umferðaröngþveiti eins og tíðkast þar er ekki til á Íslandi. Þetta sá ég með eigin augum er ég flutti heim frá Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 2.7.2007 kl. 20:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband