1.7.2007 | 00:30
Fjórða valdið vari sig
Hér áður fyrr á árunum ríkti sú regla, að þeir sem grunur lék á, að komist hefðu í kast við lögin, voru einfaldlega dregnir fyrir rétt. Þar voru mál þeirra reifuð til sóknar og varnar áður en dómur féll, rétt eins og vera ber í réttarríki. Auðvitað voru af og til kveðnir upp hæpnir dómar, en dómskerfið er mannanna verk og því útilokað, að komast hjá því.
Nú er öldin önnur. Jafnvel í miðjum málaferlum koma meintir afbrotamenn fram í sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum (eiga reyndar suma þeirra sjálfir) og lýsa málavöxtum, eins og þeim sjálfum hentar. Og séu þeir fundnir sekir, þá skeiða þeir aftur fram á fjölmiðlavöllinn og lýsa því fjálglega, hversu blásaklausir þeir séu, þrátt fyrir niðurstöðu dómsins.
Til hvers eru þessir menn eiginlega að reyna að sannfæra mig, og annað utandómstóla fólk um sakleysi sitt? Ég fyrir mitt leyti hef hvorki vilja né forsendur til að dæma þá sýkn eða seka. Í mínum augum eru þeir einfaldlega saklausir uns sök sannast og dómur fellur. Eftir það ber þeim að taka út sína refsingu. Málið er nú ekki flóknara en það.
Er ekki orðið tímabært, að fjölmiðlafólk fara að átta sig á því, að hinu svo kallaða fjórða valdi er ætlað að upplýsa almenning, en ekki að setja upp leiksýningar í beinni útsendingu?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.