20.6.2007 | 18:15
Gróðabrall og blokkarbyggingar
Undarleg er sú árátta manna, að eyðileggja umhverfi sitt, með byggingu stórhýsa, þeirrar gerðar, sem áður kölluðust blokkir, en nú þykir fínna að nefna turna. Það er skiljanlegt, að verktakar, sem komist hafa yfir lóðir, vilji græða sem mest á þeim. Hitt er einnig augljóst, að gróði þeirra eykst í réttu hlutfalli við þá nálægð, sem blokkrinar ná himnaríki. Ekki er ég þó alveg viss um, að það sé í nokkru samhengi við nábýli við himnafeðga og þeirra drótt, enda veit ég ekki til, að gróði komi þar við sögu, eins þótt hann stafi af himinháum blokkum.
En þótt verktakar vilji græða peninga, eins og gengur og gerist, þá skil ég ekki þá stjórnmálamenn, sem heimila mönnum að spilla umhverfi annars fólks. Hvað á það t.d. að þýða, að margfalda Breiðholtið og flytja það niður í miðbæ Reykjavíkur, með því að reisa tuttugu hæðja blokk í Skuggahverfinu? Eða að koma "njújorkískum" spírum fyrir á bökkum Ölfusár? Halda menn, að Selfoss sé stórborg? Mér skilst, að einhverjum hafi meira að segja dottið í hug, að reisa tvær blokkir í Stokkseyrarfjörunni, af öllum stöðum á jarðríki! Halda menn í raun og veru, að fólk, sem flytjast vill frá Reykjavík til nærliggjandi þorpa, geri það, til að hópast saman í eftirlíkingum af reykvískum úthverfum?
Á Akureyri, sem tvímælalaust er fegursti bær landsins, er ekki ein einasta blokk í þeirri hæð, að þar megi teygja sig út um glugga á efstu hæðum, til að fá lánað salt hjá Maríu mey. Menn skyldu taka það sér til fyrirmyndar
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst þú heldur tala niður til landsbygðarinnar, Pjetur. Þú skrifar eins og ráðamenn á Selfossi og Stokkseyri séu að byggja til að lokka að langþreytta Reykvíkinga, lúna af stórborginni. Það er nákvæmlega ekkert athugavert við það að byggja upp en ekki út þó auðvitað verði allt að eiga sér réttan stað. Háhýsi í Þingholtunum, svo ég taki dæmi, eiga ekki upp á pallborðið hjá mér.
Ég er orðinn afskaplega þreyttur á þeim sem geta ekki fellt sig við þá hugmynd að þeir búi í borg og verði alltaf að geta séð til Esjunar. Það er fyrir löngu orðið hlægilegt hversu mikið land hefur farið undir afar lítinn fjölda fólks í Reykjavík. Sem dæmi má nefna að fyrir nokkru varð stórreykjavíkursvæðið, sem á búa innan við 200.000 manns, stærra að flatarmáli heldur en Chicago borg en þar búa rúmar 3 milljónir. Eitthvað má á milli vera?
Guðmundur Valur (IP-tala skráð) 21.6.2007 kl. 00:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.