Á að einkavæða Menntaskólann á Akureyri?

Í skólaslitaræðu sinni í gær, kvartaði Jón Már Héðinsson skólameistari Menntaskólans á Akureyri undan minnkandi fjárframlögum til skólans.  Ráðstöfunarfé skólans hefur verið skert um 30% á hverju ári, undanfarin þrjú ár.  Með ráðstöfunarfé er átt við það fé, sem skólinn hefur til ráðstöfunar, umfram laun, rafmagn og annann fastan kostnað.  Afleiðingin er m.a. sú, að erfitt er að þróa nútímalega kennsluhætti við skólann.

Vitanlega er skerðingin á ábyrgð menntamálaráðherra. Er ástæðunnar ef til vill að leita, í þeirri staðreynd að ríkið fjármagnar í raun hina svo kölluðu einkareknu háskóla. Í raun eru þeir að stórum hluta ríkisreknir, enda fá þeir sama fjárframlag á hvern nemanda og Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri.   

Ýmsir hafa orðið til að efast um gæði þeirrar kennslu, sem "einkaháskólarnir" láta í té.  Hér skal ekki felldur dómur um þær vangaveltur.  Hitt er ljóst, að fræðslukerfið er einskonar píramídi; leikskólarnir eru neðsta lagið, þá koma grunnskólarnir, svo framhaldsskólarnir og loks háskólar.  Hvert lag þarf að vera traust, annars hrynur allur píramídinn.  Þetta þarf menntamálaráðherra að gera sér ljóst.

Í umræddri ræðu reifaði skólameistari þá hugmynd, að gera Menntaskólann á Akureyri að einkaskóla, sem fjármagnaður yrði af fyrirtækjum.  Vonandi var hér ekki talað í fullri alvöru.  Fyrirtæki leggja ekki peninga í skóla, nema þau fái eitthvað fyrir sinn snúð.  MA er hefðbundinn menntaskóli með bekkjarkerfi.  Hann hefur hingað til þótt íhaldssamur án afturhalds, eins og alvöru menntastofnanir eiga að vera.  Ef hann yrði rekinn á kostnað fyrirtækja mundi hann einfaldlega breytast í verslunarskóla.

En þótt fráleitt sé, að fyrirtæki komi að rekstri skólans, mætti hugsa sér, að hann yrði styrktur af hollvinafélagi, þar sem fjárframlag hvers félaga yrði takmarkað við vissa upphæð, til að koma í veg fyrir óeðlileg áhrif einstaklinga á starfsemi skólans.

Að lokum óska ég Menntaskólanum á Akureyri velfarnaðar í framtíðinni,  helsta og elsta menntaskóla landsins utan Reykjavíkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir góðan pistil Pétur. Það er sorglegt að það sé verið að svelta framhaldsskólana til einkavæðingar en vonandi er Jón Már ekki að meina þetta í fullri alvöru þó að hann vilji þrýsta á Þorgerði Katrínu og fjármálaráðherra að standa við framlög til skólanna. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 19.6.2007 kl. 08:29

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þessar fréttir að norðan um skerðingu komu mér frekar á óvart því að því er ég best veit hefur brottfall verið með minnsta móti hjá MA og því ætti reiknilíkanið sem útdeilir peningum í réttu hlutfalli við þá sem mæta í próf að vera þeim hliðhollara en hinum sem eru að tapa fólki í gegnum brottfallið og þar með tekjum.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 19.6.2007 kl. 23:05

3 Smámynd: María Kristjánsdóttir

En hverjar eru forsendurnar í reiknilíkaninu eru þær ekki jafnslæmar og hjá HÍ ? Þar hafa menn til dæmis ekki fé til að greiða utanaðkomandi innlendum gestum sem stundum mæta í tíma til að miðla af sértækri reynslu sem hvergi hefur verið skráð á bók. Og um kennara hef ég heyrt sem greiða slíkum gestum úr eigin vasa. Þarf ekki að fara að opinbera og ræða þessa svokölluðu þjónustusamninga menntamálaráðuneytisins?

María Kristjánsdóttir, 21.6.2007 kl. 00:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband