17.6.2007 | 23:28
17. júní, hvað er nú það?
Mér er stórlega til efs, að nokkur hátíðardagur okkar Íslendinga sé eins fjarri upphafi sínu og 17. júní. Ræður stjórnmálamannanna vítt og breitt um landið eru í raun hjáróma endurtekning liðins tíma. Margir þeirra virðast ekki einu sinni skilja, hvað í raun og veru gerðist á Íslandi þann 17. júní 1944 og helst á þeim að heyra, að þann dag hafi þjóðin öðlast sjálfstæði. Það er fjarri öllu lagi; Ísland varð fullvalda ríki þann 1. desember 1918. Að vísu var landið enn í konungssambandi við Danmörku, þó ekki þannig, að það væri hluti danska konungsríkisins, heldur var það sérstakt konungsríki, enda þótt sami kóngurinn væri í báðum löndunum.
Enn má heyra stjórnmálamenn og meira að segja sagnfræðinga, halda því fram, að Danir hafi farið með utanríkismál Íslendinga eftir sambandslagasáttmálann 1918. Hið rétta er, að það gerðu þeir í umboði Íslendinga og aðeins að svo milku leyti, sem okkur þóknaðist. Þessu til staðfestingar stofnuðum við sendiráð í Kaupmannahöfn skömmu eftir 1918. Sama gilti um hæstarétt; við notuðumst enn við þann danska í nokkur misseri, en stofnuðum síðan okkar eigin. Þannig mætti áfram telja.
Hinn raunverulegi frelsisdagur Íslendinga er því 1. desember en ekki 17. júní. Síðarnefnda daginn var aðeins stofnað það lýðveldi, sem stefnt hafði verið að allt frá 1918 og sambandslagasáttmálinn tryggði. Allt tilstandið kringum lýðveldisstofnunina 1944 var í raun ein heljarinnar leiksýning, þar sem stjórnmálamenn þess tíma freistuðu þess, að slá sjálfa sig til riddara, með því að telja þjóðinni trú um, að þeir hefðu leitt sjálfstæðisbaráttunna til lykta. Hátíðahöldin 17. júní eru því sögufölsun; hinn raunverulegi þjóðhátíðardagur Íslendinga er 1. desember.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er samt betra veður yfirleitt á 17. júní en 1. des. Það vegur þó nokkuð!
Sigurður Þór Guðjónsson, 18.6.2007 kl. 00:13
Ég hef alltaf haft illar bifur á þessum degi og held mig fjarri mannhafinu. Fannst reyndar áminning um bananalýðveldið á þjóðleikhúsinu viðeigandi. Hefði viljað sjá það en gat ekki fengið sjálfa mig til að fara í mannþröngina í miðbæ borgarinnar.
Birgitta Jónsdóttir, 18.6.2007 kl. 07:55
Það er í rauninni verið að halda upp á afmælið hjá Jóni Sigurðssyni ekkert annað
Hugrún (IP-tala skráð) 19.6.2007 kl. 11:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.