81 árs ýtustjóri kemst ekki á eftirlaun...

Í fréttum Ríkissjónvarpsins í gær var rætt við ýtustjóra, sem um þessar mundir starfar við Kárahnjúka.  Þetta væri svo sem ekki í frásögur færandi, nema hvað maðurinn er 81 árs að aldri.  Hann hefur unnið á jarðýtum síðan árið 1947.

Gamli maðurinn var hinn hressasti.  Þó var ekki laust við, að mér þætti það nokkuð átakanlegt, að heyra hann segja frá því, þegar hann reyndi að fara á eftirlaun, en hafði ekki efni á því.  Og samt hló sá gamli, hress og kátur í ýtunni sinni.  Mér varð hins vegar hugsað til ónefnds Seðlabankastjóra, sem bráðum fær eina milljón og sjöhundruðþúsund krónur í mánaðarlaun hjá bankanum, auk þess að fá rúmar 700.000 krónur í eftirlaun fyrir að hafa verið forsætisráðherra.  Þó er hann enn í fullu starfi og launin ekki tiltakanlega skorin við nögl, eins og sjá má.

Í fréttatímanum í kvöld var svo sagt frá því, að verið er að reisa tuttugu hæða blokk í Skuggahverfi.  Dýrasta íbúðin verður á tveimur efstu hæðunum og á að kosta litlar 230 miljónir króna að innréttingum frátöldum.  Fram kom í fréttinni, að slegist er um herlegheitin.  Á sama tíma eru sjúklingar látnir liggja á göngum sjúkrahúsa.  Er þetta það þjóðfélag, sem við kjósum okkur? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hreinn Ómar Smárason

Við hljótum að geta gert betur við fólkið okkar sem þarf á okkar aðstoð að halda.  Við erum ein þjóð í þessu landi, ein stór fjölskylda, og eigum að standa saman og hjálpast að í erfiðleikum.  En stemmningin á meðal oss er ekki þannig.  Nú skiptir öllu að eiga nóg af peningum.

Lífeyrissjóðirnir liggja á milljörðum og fleiri milljörðum eins og ormar á gullinu sínu, og gullið og ormarnir tútna út á meðan gamla fólkið býr við bág kjör.

Seðlabankastjórar sanka að sér gulli, og gullið og bankastjórarnir tútna út, á meðan fjölmargir eiga vart í sig og á.

Innan skamms, þegar búið verður að einkavæða heilbrigðisgeirann, þá mun þetta sama fólk ekki hafa efni á því að leita til læknis.

Þeir ríku verða ríkari og þeir fátæku fátækari.

Frami einstaklingsins er að verða það eina sem skiptir máli, á kostnað allra hinna sem af einhverjum ástæðum tekst ekki að ota sínum tota.  Þeir geta bara étið það sem úti frýs, þeim sjálfum að kenna.

Þetta hljómar kunnuglega í eyrum einhverra sem til þekkja. 

Við erum að verða litla Ameríka.

Hreinn Ómar Smárason, 13.6.2007 kl. 11:29

2 identicon

Hvernig stendur á því að maður sem hefur unnið í 60 ár á ýtu - sem hefur nú þótt sæmilega launað starf, fær bara 60.000 í "eftirlaun". Hefur maðurinn ekki lífeyrissjóð? Og hverjum er hægt að kenna um það? Núverandi ríkisstjórn? Ef allt væri eðliegt væri þessi maður búinn að borga áratugum saman í lífeyrissjóð og ætti að fá þokkalega borgað úr honum.

Örn (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 14:59

3 identicon

Ég spyr er forsvaranlegt að hafa gamalmenni sem komið er á níunda áratuginn stjórna vél sem þessari.

lámarkslífeyrir frá t.r. og lífeyrissjóði er um 120,000 á mánuði

Guðrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 15:35

4 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Gott að sjá efasemdir um ágæti þeirrar miklu græðgivæðingar sem þjóðin hefur upplifað.

Þessi þjóð þarf ekki óvini, hún sér sjálf um að þurrka öll sérkenni sýn út og búa til litla eftirmynd af gráðugu Ameríku, með Breskri stéttskiptingu í bland.

Yndislegt fyrirkomulag

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 13.6.2007 kl. 21:46

5 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Það á að leyfa fólki að vinna eins lengi og það vill sjálft

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 13.6.2007 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband