Strákarnir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í heimsók

Jæja, þá hafa strákarnir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kvatt eftir eina af sínum reglulegu heimsóknum hingað til lands.  Eins og vant er, gáfu þeir landanum ráð, sem menn geta svo deilt um, hversu góð séu.  Þau voru helst þessi; farið varlega í launahækkanir og einkavæðið Íbúðalánasjóð.

Seðlabankinn hefur þegar þakkað ráðin og lýst yfir ánægju sinni með þau.  Það þýðir væntanlega, að bankastjórarnir þar á bæ, munu afþakka nýfengnar launahækkanir sínar.  Að minnsta kosti skal enginn fá mig til að trúa því, að þessir sómamenn séu ómerkingar orða sinna.  Og ekki trúi ég því, að þeir telji sig eina eiga að njóta bættra launakjara.

Sú ráðlegging strákanna frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, að einkavæða beri Íbúðalánasjóð, kemur ekki á óvart.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var til þess stofnaður, að efla hag kapitalista; ekki að standa vörð um hag almennings.  Og strákar með hvítt um háls, vita hvað til þeirra friðar heyrir.

Vitanlega er Íbúðalánasjóður ekki hafinn yfir gagnrýni frekar en önnur mannanna verk.  Þannig var hann t.d. misnotaður herfilega fyrir þingkosningarnar árið 2003, þegar Framsóknarmenn hækkuðu lánshlutfall hans upp í 90% og komu þannig á stað óðaverðbólgu á fasteignamarkaði.  Það sér ekki enn fyrir endann á þeim hörmungum, sem sú misbeiting valds olli.

Eigi að síður er Íbúðalánasjóður nauðsynlegur.  En vert er að huga að því, hvort hann eigi erindi á almennan lánamarkað til húsnæðiskaupa.  Væri ef til vill ráð, að bankarnir og lífeyrissjóðir önnuðust lán á almennum fasteignamarkaði, en Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðirnir sæu um lánveitingar til þeirra, sem minna mega sín, sem og þeirra, sem kjósa að binda fé sitt í öðru en húsnæði í einkaeign?

Í öllum nágrannalöndum okkar þrífst leigumarkaður, bæði almennur og félagslegur.  Hvers vegna lánar Íbúðalánasjóður ekki fé til bygginga leiguhúsnæðis, ýmist á vegum sveitafélaga, byggingasamvinnufélaga eða byggingaverktaka?  Þessi lán gætu verið á lægri vöxtum en gengur og gerist á almennum lánamarkaði, en um leið háð ákveðnum skilyrðum í anda félagshyggju.  Væri ekki hugsanlegt, að slík ráðstöfun mundi skapa jafnvægi í byggð landsins og auka um leið möguleika þeirra, sem vilja binda fjármuni sína í einhverju öðru, en þaki yfir höfuðið eingöngu?  Gæti þetta ekki eflt smáan og meðalstóran atvinnurekstur?

Því miður hef ég ekki í farteskinu neina heildarlaust þessara mála; efast raunar um, að hún sé til.  En er ekki löngu tímabært, að stjórnmálamenn fari að ræða þessi mál án fagurgala og ábyrgðarleysis að hætti Framsóknarmanna hér um árið?  Má ekki vænta þess, að jafnaðarmönnunum í ríkisstjórninni renni blóðið til skyldunnar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

"Vitanlega er Íbúðalánasjóður ekki hafinn yfir gagnrýni frekar en önnur mannanna verk.  Þannig var hann t.d. misnotaður herfilega fyrir þingkosningarnar árið 2003, þegar Framsóknarmenn hækkuðu lánshlutfall hans upp í 90% og komu þannig á stað óðaverðbólgu á fasteignamarkaði."

Samkvæmt upplýsingum Íls. nema heildarupphæð sem sjóðurinn hefur lánað samkvæmt nefndri 90% reglu kr. 40.000.000.- Upphæðin frá 80-90% er því 4.444.444.- Það má með ólíkindum heita hafi sæmileg mánaðarlaun þessar harkalegu áhrif.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 11.6.2007 kl. 22:52

2 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Við nánari skoðun er þetta ekki rétt hjá mér.

Lánin voru 40 talsins. þannig að upphæðin hækkar úr 4.444.444.- í 60.000.000.- sem er í staðin fyrir krækiber í Helvíti verður að bláberi í Helvíti.

Þó held ég að 60 mil. nái ekki "hriðjuverki" í 2.000 miljarða hagkerfi.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 12.6.2007 kl. 11:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband