25.5.2007 | 16:52
Hundrað ára afmæli Klepps
Þessa dagana fagna menn hundrað ára afmæli Kleppsspítala. Engum, sem kynnt hefur sér meðferð á geðsjúklingum, áður en Kleppsspítali tók til starfa, getur dulist, hve gríðarlegt framfaraspor var þarna stigið. Og þær voru fleiri, framfarirnar á heimastjórnartímabilinu. Nægir í því sambandi að nefna byggingu Safnahússins við Hverfisgötu, stofnun Landsímans og Íslandsbankans gamla. Okkur nútímamönnum hættir til að trúa því, að við upplifum örara framfaraskeið, en áður hafi þekkst. Það er mikill misskilningur.
Meðferð geðsjúklinga hefur tekið miklum breytingum síðustu öldina. Munar þar mest um lyfin. Þau ollu á sínum tíma straumhvörfum. Án þeirra væru margir verr settir, en raun ber vitni. Þó verður að gæta þess, að geðlyf eru ekki lausn í sjálfu sér. Aftur á móti opna þau mörgum áður luktar dyr til meðferðar. Þar er enn mikið starf fyrir höndum.
Geðsjúklingum fer nú mjög fjölgandi a.m.k. á Vesturlöndum. Því veldur ýmislegt, s.s. firring nútímans og minnkandi einstaklingsvitund. Stöðugt fleiri spyrja: Hvað er ég", í stað þess að spyrja: Hver er ég". Meðal afleiðinga þessa er stöðugt vaxandi þunglyndi.
Það er full ástæða til að fagna aldarafmæli geðlækninga á Íslandi. En betur má ef duga skal. Það þarf að stórauka iðjuþjálfun, eftirfylgni að lokinni útskrift og menntun starfsfólks. Vaktakerfið meðal gæslumanna á geðsjúkrahúsum er t.d. nokkuð, sem þarf að endurskoða. Kjarni gæslumanna á geðdeildum á að vera vel menntaður, hver á sínu sviði og vinna aðeins dagvinnu, næturvinnan á að vera á höndum annarra. Þannig nýtist starfsliðið mun betur en nú er. T.d. má vel hugsa sér, að listir verði nýttar í þágu geðsjúkra meira en nú er.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
"Þó verður að gæta þess, að geðlyf eru ekki lausn í sjálfu sér". Talar þú af reynslu í þessu efni, Pjetur ? Myndirðu segja þetta um t.d. insúlín ? "Þó verður að gæta þess, að lyf við sykursýki eru ekki lausn í sjálfu sér".
Lana Kolbrún Eddudóttir (IP-tala skráð) 27.5.2007 kl. 22:20
Já, ég tala af nokkurri reynslu, vegna starfa í geðheilbrigðiskerfinu. Þetta er of flókið mál, til að fara náið út í það hér. En það er ekki hægt, að bera saman lyf við líkamlegum kvillum og andlegum. Geðlyf hafa opnað mörgum leið til betra lífs. En þau eru eins og dyr; stundum þarf að hjálpa mönnum yfir þröskuldinn, jafnvel þótt dyrnar standi opnar upp á gátt.
Pjetur Hafstein Lárusson, 28.5.2007 kl. 20:48
"En það er ekki hægt, að bera saman lyf við líkamlegum kvillum og andlegum." Fyrirgefðu, Pjetur, að ég skyldi flaska á aðskilnaði holdsins og andans. Hvenær var hann aftur ákveðinn ? Á miðöldum, var það ekki ? Var talað eitthvað um boðefni þegar þú varst að vinna í heilbrigðiskerfinu, Pjetur ?
Lana Kolbrún Eddudóttir (IP-tala skráð) 28.5.2007 kl. 22:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.