Nokkur orð um stjórnarsáttmálann

Jæja, þá er búið að opinbera stjórnarsáttmálann.  Ég verð að játa, að ég hef enn ekki lesið plaggið, heldur látið mér nægja fréttir af því.  Mér virðist, fljótt á litið, að hér sé um jaðarstjórn að ræða.  Þá á ég við ríkisstjórn, sem ætlar sér að huga að jaðri samfélagsins, svo sem kjörum barna, aldraðra og öryrkja.  Á því er full þörf.  Vonandi verður þetta ekki til þess, að gróðaölfin sjá um allt hitt.  

Þetta leiðir hugann að minnkandi vægi stjórnmálaflokka í þjóðlífinu, ekki aðeins hér á landi, heldur víðast hvar í heiminum.  Bæði hafa þeir vísvitandi fært völdin í hendur peningaaflanna, en eins er hins að gæta, að almenningur starfar nú mun meira innan grasrótahreyfinga en stjórnmálaflokka.  Það er eðlileg afleiðing af fjölbreytilegara menningarsamfélagi en áður þekktist.  Ég er ekki frá því, að þeir stjórnmálamenn, sem gera sér þetta ljóst og starfa með fólkinu, í stað þess að deila og drottna, geti komið ýmsu góðu til leiðar.  Vonandi er einhverja þeirra að finna, innan hins nýja meirihluta á Alþingi.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um málefni Íraks er ekki stórmannleg og verður það tæpast við þýðingu á erlendar tungur, þótt hinn nýbakaði utanríkisráðherra hafi látið að því liggja í sjónvarpinu um daginn.  Þá verður að segjast eins og er, að stefnan í stóriðjumálum er nokkuð óljós.  En við sjáum hvað setur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband