Kosningaúrslitin

Þá þarf ekki lengur að spá í úrslit kosninganna; þau liggja ljós fyrir.  Sigurvegarar kosninganna eru Vinstri grænir og Sjálfstæðismenn.  Vinstri grænir  fengu 14,3% greiddra atkvæða, bættu við sig 5.5%.  Þeir fá nú 9 þingmenn, en höfðu áður 4.  Sjálfstæðismenn fengu 36.6%, sem er aukning um 2,9% frá síðustu þingkosningum.  Þeir fá nú 25 þingmenn, bæta við sig 3.  Má þetta óneitanlega teljast merkilegur árangur eftir 16 ára stjórnarsetu.

Framsóknarmenn töpuðu kosningunum og ekki er hægt að tala um sigur Samfylkingarinnar.    Framsóknarmenn fengu aðeins 11,7% atkvæða, sem er 6% lægra en í kosningunum 2003.  Þeir sitja uppi með 7 manna þingflokk, tapa sem sagt fimm þingsætum.  Samfylkingin fékk 26,8%, sem er samdráttur upp á 4,2%.  Þingmönnum hennar fækkar úr 20 í 18.  Það verður að teljast mikið afhroð hjá stærsta flokki stjórnarandstöðunnar.

Tæpast er hægt að segja, að ríkisstjórnin haldi velli; hún hangir á horriminni.  Ef Framsóknarflokkurinn fer enn á ný í samstarf með Sjálfstæðisflokknum, grefur hann sjálfum sér gröf.  Hann á því ekkert val um stjórnarmyndun, nema til vinstri.

Skilaboð kjósenda eru skýr; annað hvort vilja þeir vinstri stjórn eða hægri stjórn.  Þetta má m.a. sjá á því, að þá fyrst fór Samfylkingin að rétta úr kútnum í kosningabaráttunni, þegar frambjóðendur hennar snéru sér að sígildri jafnaðarstefnu og hættu að ræða landbúnaðarmál og Evrópusambandsaðild.

Samkvæmt ofanrituðu er vinstri stjórn nærtækasti kosturinn.  Ef ekki næst samstaða um hana á Sjálfstæðisflokkurinn leikinn;  hann getur þá myndað stjórn með Samfylkingu eða Vinstri grænum.  Varla eru Framsóknarmenn svo heillum horfnir, að þeir sættist á að styrkja núverandi ríkisstjórn, með aðild Frjálslynda flokksins.

Við sjáum hvað setur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband