Auglýsing geng lýðræði?

Óhætt er að segja, að í dag, 11. mai 2007, hafi verið bortið blað í íslenskri stjórnmálasögu, með heilsíðuauglýsingu ónefnds kaupmanns, sem birtist í öllum dagblöðum landsins, að Viðskiptablaðinu undanskildu.  Raunar mun umræddur kaupmaður vera einn helsti eigandi flestra fjölmiðla landsins og ætti auglýsingakosnaðurinn því tæpast að vaxa honum í augum. 

Auglýsingasíðan er að mestu þakin ljósmynd af kaupmanninum, en undir henni er grein, þar sem hann hvetur kjósendur til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.  Um leið skorar hann á kjósendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi syðra, til að strika yfir nafn dómsmálaráðherra.

Nú er það vitanlega ekki gagnrýnisvert, að einhverjum sé svo í nöp við ákveðinn frambjóðanda, að hann hvetji menn til þess að afmá nafn hans af kjörseðli.  Það er heldur ekkert tiltökumál, að viðkomandi noti fjölmiðla, til að koma þessari skoðun sinni á framfæri.  Aftur á móti sætir það tíðindum, að kaupmaðurinn telji sig ekki geta tekið þátt í lýðræðislegri umræðu, með því einfaldlega að skrifa grein, skoðun sinni til framdráttar.  Er þetta ef til vill fyrirboði þess, að fólk þurfi að borga fjölmiðlum fyrir að opinbera skoðanir sínar?  Og hvernig stendur á því, að þessi auglýsing birtist síðasta dag fyrir kosningar?  Er vísvitandi verið að koma í veg fyrir rökræður um þetta háttarlag kaupmannsins?  Menn geta velt þessum spurningu fyrir sér í ró og næði.  En óneitanlega sýnir þetta, að lýðræði og óhóflegur veraldlegur auður fara illa saman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þú talar hér um lýðræðislega umræðu. Hann er býsna margraddaður kórinn sem boðar okkur þessa umræðu. Mér finnst það álitamál hvenær umræða er lýðræðisleg og hvenær ekki. Jóhannes kaupmaður hefur orðið fyrir heiftugri árásum frá fulltrúum stjórnmálaafls en ég man dæmi um. Björn Bjarnason er æðsti maður dómsmála og jafnframt einn af foystumönnum þess stjórnmálaafls sem stýrt hefur árásunum á Jóhannes og fjölskyldu hans. Er það ólýðræðisleg umræða að ávarpa kjósendur með beinum tilmælum? Ekki hvarflar það að mér að þú sért svo blindur að sjá ekki tengslin milli þessa tiltekna máls og Sjálfstæðisflokksins. Þá værir þú einn af örfáum.

Mín réttlætiskennd er að því leytinu sveigjanlegri en þín að við þetta sé ég ekkert athugavert og ég hefði farið eins að. það hygg ég reyndar að þú hefðir gert líka. Undarlegt finnst mér að verða að benda þér á að Jóhannes hefur margoft skrifað greinar í blöð um þetta mál. Undarlegt jafnframt ef þú hefur ekki veitt því eftirtekt að hann er betur máli farinn en margur annar sem til máls tekur og rökvís að sama skapi. Jóhannes í Bónus er reiður maður og það skil ég vel, ég væri það líka. Ég er reyndar öskureiður fyrir hans hönd og líka fyrir mína hönd. Mér þykir nefnilega undur vænt um lýðræðið og áskil mér allan rétt til að taka til máls þegar menn bera það sér í munn með hjákátlegum tilburðum eða vanburðum.

En um síðustu ályktun þína erum við hjartanlega sammála.

Árni Gunnarsson, 12.5.2007 kl. 09:42

2 Smámynd: Haukur Nikulásson

Björn Bjarnason má strikast út feitt mín vegna.

Á sama tíma og hann lagði Baugslíðið í einelti bjó hann svo um hnútana að venslafólkið hans í olíubransanum yrði ekki fyrir óþarfa ónæði. Þó lágu þar játningarnar fyrir glæpnum fyrir. "Tæknilegt klúður" kom í veg fyrir sakfellingu þar.

Björn Bjarnason beitti sér sérstaklega fyrir því að Árni Johnsen yrði gjaldgengur til þings með því að veita honum "uppreista æru" ásamt eiginkonu olíuþjófsins, Gunlaugs Claessens hæstaréttarforseta og Geir H. Haarde. Siðblinda skiptir þetta fólk greinilega engu máli þegar á reynir.

Ég tek því undir þetta: Strikið vel yfir Björn Bjarnason! 

Haukur Nikulásson, 12.5.2007 kl. 10:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband