9.5.2007 | 22:00
Kosningaþankar-klofningur í Framsóknarflokknum
Jæja, þá fer að líða að kosningum og aldrei að vita, nema upp úr kjörkössum verði talið, fyrr eða síðar. Auðvitað láta stjórnmálaflokkarnir allir, eins og heill og hamingja þjóðarinnar velti á því, að réttar" tölur komi upp úr þessum kössum. Það getur svo sem vel verið, að þeir hafi nokkuð til síns máls. Samt er ég nú á því, að sólin muni rísa í austri að morgni næsta sunnudags og hníga í vestri, hverngi sem kosningarnar fara. Alþýða manna hefur nefnilega alltaf getað treyst einu; höfðingjar koma og höfðingjar fara. Ég vona bara, að þeir verði mér og mínum að meinalausu. Meira verður tæpast krafist.
Ráðherrar hafa farið mikinn síðustu daga, veitt fé á báðar hendur og lofað svo rækilega upp í ermina á sér, að ekki er annað sýnna, en þeir dragi hana langar leiðir á eftir sér. Stjórnarandstöðuleiðtagar geta að vísu ekki spreðað peningum vítt og breitt um kjördæmi landsins, enda sitja þeir ekki við kjötkatlana. En þeir eru ekki sparir á loforðin frekar en ráðherrarnir. Og hvað sem um allt þetta fólk má segja, þá verður því ekki neitað, að það er fjarskalega vel meinandi, að minnsta kosti þegar kosningar nálgast.
Merkilegt er það, að almenningur virðist ekki vera mjög spenntur varðandi úrslit kosninganna. Menn bíða þess hins vegar í ofvæni, hvaða flokkar muni mynda ríkisstjórn að kosningum loknum. Ég fæ ekki betur séð, en flestir vilji gefa maddömu Framsókn langt og gott frí. En það er eins og þriggja flokka stjórn fæli. Þá er ekki um annað að velja, en að Sjálfstæðisflokkur myndi ríkisstjórn, annað hvort með Samfylkingunni eða Vinstri grænum. Við sjáum til.
Athyglisvert er, að það virðist hafa farið fram hjá flestum, að klofningur er kominn upp í Framsóknarflokknum. Valgerður Sverrisdóttir hefur lýst því yfir, að ekki komi til greina, að flokkurinn taki þátt í stjórnarmyndun ef hann bíði verulegan ósigur í kosningunum. Aftur á móti hefur Guðni Ágústsson sagt, að fari svo, komi stjórnarþáttaka Framsóknarflokksins ekki til greina, verði um tveggja flokka ríkisstjórn að ræða. Þetta þýðir einfaldlega, að Guðni biðlar til vinstri en Valgerður ekki.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.