8.5.2007 | 23:03
Ágætis sjónvarpsefni á vitlausum tíma
Amerískt sjónvarpsefni, oftar en ekki heldur svona af lakara taginu, er beinlínis yfirþyrmandi í dagskrá íslenskra sjónvarpsstöðva. Þetta á því miður ekki síður við um Ríkissjónvarpið en aðrar stöðvar. Þó eru á þessu nokkrar ánægjulegar undantekningar, hvað Ríkissjónvarpið varðar, svo sem fræðsluþættir á mánudagskvöldum og kvikmyndir héðan og þaðan á sunnudagskvöldum.
Stundum má þarna sjá ágætar kvikmyndir frá Spáni, Frakklandi, Danmörku og víðar að. En af einhverjum undarlegum ástæðum bregður þá svo við, að myndirnar eru sýndar svo seint, að ætla mætti, að dagskrárstjórn Ríkissjónvarpið væri það kappsmál, að sem fæstir horfi á þær. Þetta er svolítið dapurlegt, ekki síst með tilliti til þess, að Ríkissjónvarpinu er ætlað menningarlegt hlutverk.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Heyr, heyr! Hálf-ellefu á sunnudagskvöldi er ekki tíminn til að byrja að horfa á bíómynd, jafnvel þó hún virðist vera góð.
Vala Guðbjartsdóttir (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 10:11
Já, Pétur, sjónavarpsefnið hefur lengi verið einhæft og dapurt. Hvað er ekki búið að sýna margar seríur af lögræðingaþáttum, lögregluþáttum, þáttum um ameríska unglinga í "tilvistarkreppu"? Afskaplega einhæft og lélegt efni. Bíómyndirnar eru af sama toga. Það er einsleitt úrvalið af þeim. Amerísk sápa og spennumyndir. Myndir frá Skandinavíu sjást lítið og því síður frá öðrum Evrópulöndum. Ég bíð alltaf eftir meira af innlendu efni sem átti að koma. Það var í eina tíð að íslenskir skemmtiþættir og annað efni voru fastir liðir í dagskránni sem og íslenskir framhaldsþættir. Ég sakna þeirra. Það er vonandi að úr rætist. Við erum orðin alltof amerísk, því miður.
Sigurlaug B. Gröndal, 9.5.2007 kl. 14:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.