7.5.2007 | 23:39
Hvernig kýs unga fólkið?
Það er nú svo með mannanna verk, að þau þurfa stöku sinnum að ganga í endurnýjun lífdaga, eigi þau ekki að glata tilgangi sínum. Þetta á ekki síður við um lýðræðið en annað. Núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur setið að völdum í tólf ár, en þar áður sat ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Þeir sem nú neyta í fyrsta sinn kosningaréttar síns, muna því ekki ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins og tæpast án Framsóknar heldur.
Framsóknarflokkurinn virðist ekki njóta þessarar löngu ríkisstjórnarsetu ef marka má skoðanakannanir; þvert á móti, menn eru einfaldlega orðnir hundleiðir á honum. Aftur á móti er svo að sjá, sem Sjálfstæðisflokkurinn njóti langrar setu við kjötkatla valdsins. Ekki ber að gagnrýna það, ef fólk kýs flokkinn vegna þess, að það hafi traust á honum, verka hans vegna. Hitt er öllu lakara, að hlusta á ungt fólk lýsa því yfir, að það ætli að kjósa flokkinn, beinlínis vegna þess, að það hafi ekki áhuga á stjórnmálum; það treysti einfaldlega þeim stjórnmálaflokki, sem leiði þá einu ríkisstjórn, sem það man eftir.
Það hlýtur að vera skelfileg tilhugsun fyrir Sjálfstæðismenn, ef sambúð flokks þeirra við þjóðina á eftir að enda eins og útvatnað hjónaband, þar sem bæði hjónin hafa löngu gleymt, hvers vegna þeim datt einginlega í hug, að stofna til hjúskapar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er sammála því að það er ekki gott að fólk, sama á hvaða aldri það er, kjósi út í loftið því það nenni ekki að kynna sér málin.
Mér þykir þó meira áberandi að ungt fólk á mínum aldri, standi fast á að kjósa ekki Sjálfstæðisflokkinn, án þess þó að hafa kynnt sér flokkinn, einfaldlega vegna þess að nú ríður yfir sú tískubylgja að vera á móti. Þau hafa hinsvegar flest ekki hundsvit á því hverju þau eru ,,á móti". Því miður, enda Sjálfstæðisflokkurinn unnið góð störf fyrir landið.
Kveðja, Andrea.
Andrea, 8.5.2007 kl. 09:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.