6.5.2007 | 22:44
Enn um kosningar
Maðurinn kom sér upp heimspekinni til að þroskast, listunum til að njóta og stjórnmálunum til að þjarka. Auðvitað er þetta aðeins dulítil hugdetta og ég yrði manna fegnastur, ef hún yrði hrakin. En því miður virðist mér sá hluti stjórnmála, sem nú snýr að fólki, þ.e.a.s. kosningabaráttan ekki snúast um neitt annað en innantómt þjark.
Í hvert skipti, sem ég heyri stjórnmálamenn tala, og þeir gera mikið af því þessa dagana, læðist að mér sá grunur, að þeir sækist eftir völdum valdanna vegna, en ekki þeirra málefna sem þeir hafa á hraðbergi. Umhyggja þeirra fyrir öðru fólki minnir helst á öldugang í klettóttri fjöru; hann frussast með látum inn á milli klettanna, en sogast jafnharðan út aftur með þessu átakanlega hljóði, sem einna helst minnir á flautuóm, sem dvínar út í blámann. Frambjóðendur eru jafnvel farnir að láta hafa sig út í það, að koma fram í sjónvarpi og svara þar hraðaspurningum", rétt eins og þeir séu unglingar í spurningaþætti. Telja þeir sig fræða almenning með slíku háttarlagi?
Ég þykist vita, að hugmyndin um hraðaspurningarnar" sé komin frá fréttamönnum en ekki stjórnmálamönnum. En þeir síðarnefndu hefðu átt að hafa manndóm í sér og hafna slíku háttarlagi. Annað er einfaldlega móðgun við kjósendur og þar með lýðræðið.
Prófkjörin hafa fyrir löngu gert kosningar á Íslandi að skrípafyrirbæri með trumbuslætti og lúðraþyt. Og kjördæmaskipanin ýtir enn undir þetta. Hugmyndir þær, sem Halldór Blöndal setti fram í sjónvarpi í dag, um að landinu verði skipt í fjölmörg lítil kjördæmi, þó ekki einmenningskjördæmi, eru fyllilega þess verðar, að hugað sé að þeim.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.