Vitundin og stjórnmálin

Skyldi vitundarsvið mannsins nokkru sinni aukast í líkingu við það, sem gerist þegar hann er borinn út í sólslskinið í frumbernsku sinni?  Það er ekki stór hluti heimsins, sem við honum blasir.  En eigi að síður er það honum nýr heimur, svo ótrúlega stærri þeim heimi, sem hann þekkti úr vöggunni sinni.  Frá þessari stundu er allt hans líf leit að nýjum sannindum; tilraun til að stækka heiminn.

Eitt  það fyrsta, sem barn lærir, eftir að það getur talað, er að spyrja.  Endalaust leitar það svars við öllu mögulegu.  Og sé þroski þess eðlilegur, vekur hvert svar nýja spurn.  Það er á þessu eðli mannsins, sem kveiknar þegar í bernsku, sem  öll vísindi grundvallast.  Já, og ekki aðeins vísindi heldur einnig trúarbrögð, listir og stjórnmál.  Í raun og veru er lífið stöðug leit að sannindum.   Og til allrar hamingju tekst okkur aldrei að komast til botns í þeim.  Ef við gerðum það, væri þorskaferli okkar lokið.

Einn er þó sá hópur manna, sem lætur spurningarnar sjaldnast vefjast fyrir sér, heldur kastar þeim einfaldlega út í ystu myrkur.  Þessi hópur spyr yfirleitt einskis, en hefur jafnan svar á reiðum höndum.  Þetta eru stjórnmálamenn.  Það virðist ekki skipta máli hvar í flokki þeir þjóna; allir láta þeir sem þeir séu alvitrir.  Þetta er svolítið uggvænlegt, þegar öllu er á botninn hvolft.  Og því vaknar þessi einfalda spurning; er viturlegt, að kjósa milli þeirra?  Sennilega eigum við þó ekki annarra kosta völ.  En við hljótum að geta krafist þess af stjórnmálamönnum, að þeir hætti að segja almenningi stöðugt hvernig hann hefur það, en hlusti þess í stað á hans eigin orð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband