2.4.2007 | 16:22
Verndum Vesturbæinn
Það stafar vissum hugblæ frá öllum mannanna verkum, að sjálfsögðu í bland við náttúrulegt umhverfi þeirra. Þetta á ekki síst við um byggðir og byggðahluta. Þannig hefur, með einhverjum undarlegum hætti, tekist svo til, að gamli Vesturbærinn ber þess enn merki, að hafa verið heimaslóð sjómanna og tómthúsmanna. Og stendur þó lítið sem ekkert eftir af þeirra handaverkum, þar um slóðir. Og þó, enn má sjá reisuleg hús gamalla aflakónga við Stýrimannastíg og víðar, auk þess, sem enn standa hús, sem börn tómthúsmanna byggðu, þegar hagur alþýðunnar tók að batna.
Aðalástæða þess, að svo vel hefur til tekist, er sú, að með örfáum undantekningum, eru húsin í Vesturbænum hæfilega stór og fjölbýlishús harla sjaldséð. Þessum gamla og hugljúfa blæ Vesturbæjarins yrði vitanlega fórnað, ef klambrað yrði upp blokkahverfi í Örfirsey. Af því hlytist tjón, sem ekki yrði bætt. Vonandi bera Reykvíkingar gæfu til að huga að þessu, áður en það er um seinan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ætli það séu ekki bara við í Vesturbænum sem eru stolt af okkar bæjarhluta. Ég hitti konu sem sagði að sér fyndist Vesturbærinn eins og lítið þorp. Þar væri hægt að ferðast um á hjóli og nálgast næstum því allt.
Vonandi ná þeir ekki að eyðileggja hann með sálarlausum stórbyggingjum.
Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 2.4.2007 kl. 23:06
Vesturbærinn er fyrirmynd og það mætti hætta sem fyrst að byggja hitt draslið upp um hæðir og holt, engum til framdráttar nema bröskurum og stórverktökum.
Ólafur Þórðarson, 3.4.2007 kl. 07:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.