Er álversstækkun einkamál Hafnfirðinga?

Við Íslendingar erum, að eigin sögn, gáfaðast og menntaðasta þjóð í heimi.  Ég skal ekki fullyrða neitt um réttmæti slíkra hugmynda, en eigi þetta við rök að styðjast, verðu hún ekki af okkur skafin, hógværðin.  Að minnsta kosti er það svo, að þegar við fjöllum um þá elda, sem heitast brenna á okkur, þá tölum við gjarnan harla hugsunarlaust.  Umræðan um fyrirhugaða stækkun álversins í Hafnarfirði er gott dæmi um þetta.

Ég hlustaði um daginn á forstóra álversins í Hafnarfirði, fullyrða það í sjónvarpi, að mengun frá álverinu mundi minnka við stækkunina á hvert framleitt tonn!  Nú á framleiðslan hins vegar að aukast um 155% samkvæmt upplýsingum frá Alcan og því ljóst, að mengunin mun aukast.  Orð forstjórans eru því ekkert annað en tilraun, til að slá ryki í augu almennings.  Að sjálfsögðu mun mengunin aukast, ef af stækkun verður.  Fullyrðingar um hið gagnstæða eru settar fram í trausti þess, að Íslendingum er svo ótamt að rökræða málin, og virðist því oft vera hægt að telja okkur trú um nánast hvað sem er. 

Og nú, nokkrum dögum fyrir atkvæðagreiðslu Hafnfirðinga um álversstækkunina, tilkynna þau hjá Alcan hróðug, að hluti raflagnanna til álversins verði grafinn í jörð ef stækkun verði samþykkt!  Í kjölfarið kom svo forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, Samfylkingarmaður og hrópaði húrra. 

En mér er spurn, er ekki sjálfsagt, að grafa allar raflínurnar í jörð, ekki aðeins rétt við húsgafla Hafnfirðinga, heldur einnig alla leið frá virkjununum og til verksmiðjanna, hverju nafni, sem þær nefnast? 

Annað, en þó tengt, sem mig langar að nefna í sambandi við þessa furðulegu atkvæðagreiðslu Hafnfirðinga.  Hvernig stendur á því, að stækkun álversins telst einkamál þeirra og Alcan?  Þarf ekki að virkja neðri hluta Þjórsár, til að hægt sé að stækka álverið?  Eða stendur ef til vill til, að virkja Hafnarfjarðarlæk?  Og með leyfi að spyrja; hvernig stendur á því, að lýðræðislega kjörinn meirihluti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar telur sér stætt á því, að láta eins og hann hafi aldrei verið kjörinn?  Spyr sá, sem ekki veit.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolgrima

Álverið er svo sannarlega ekki einkamál Hafnfirðinga en ég vil heldur að aðeins þeir kjósi um stækkun en að enginn fái að segja sitt álit. Og nú er bara að vona að þeir kjósi rétt!

Kolgrima, 28.3.2007 kl. 20:04

2 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Hafnfirðingar eru bara að kjósa um deiliskipulag, hvort bærinn þeirra vilji úthluta Alcan meiri lóð til að þeir geti stækkað. Ríkistjórnin er búin að leggja blessun sína á þetta fyrir þjóðina sem kaus hana - það er búið að samþykkja að skaffa þeim orku frá Landsvirkjum af fulltrúum stjórnarflokkana þar.

Deiliskipulag Hafnarfjarðar er þeirra mál.. ríkistjórnin er búin að ákveða fyrir þjóðna að það eigi að verða af þessari stækkun, bæjarfélagið getur bara sagt nei við þessari lóðaúthlutun.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 29.3.2007 kl. 09:53

3 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Gott og vel, segjum að þetta snúist einfaldlega um deiliskipulag. Það breytir ekki því, að þetta deiliskupulag miðar að  stækkun ávlersins í Hafnarfirði og engu öðru.  En þá vakna ýmsar spurninga, svo sem: Takmarkast mengun af álveri við endimörk viðkomandi sveitafélags?  Ef ekki, má þá ekki teljast eðlilegt, að líta svo á, að stækkun álversins í Hafnarfirði, varði fleiri en Hafnfirðinga eina? Hvað um íbúa þeirra svæða, þar sem virkja á orku til álversins? 

Pjetur Hafstein Lárusson, 29.3.2007 kl. 11:05

4 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Þá hefðu nágrannasveitafélög bara átt að hafa samband við ríkið á sínum tíma, núna eru Hafnfirðingar bara að kjósa um hvort þeir vilji úthluta þessari lóð - allar aðrar ákvarðanir hafa verið teknar og búið að samþykkja að það þurfi ekki umhverfismat o.s.fv

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 29.3.2007 kl. 12:08

5 Smámynd: Rauða Ljónið

Umhverfismat var samþykkt 2005 og starfsleyfi þá gefið út mengunarmörk eru langt undir mörkum.

Rauða Ljónið, 29.3.2007 kl. 16:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband