25.3.2007 | 23:48
Albert Speer og við hin
Það er ekki aðeins óhætt, að mæla með þýsku heimildarmyndinni, sem ríkissjónvarpið sýnir nú á sunnudagskvöldum um Albert Speer; það er beinlínis ástæða til að vara alla þá, sem áhuga hafa á stjórnmálum, við því, að láta hana fram hjá sér fara, sem og reyndar alla aðra.
Speer var arkitekt Hitlers og ráðherra hergagnaframleiðslu Þýskalands frá 1942 til stríðsloka. Við réttarhöldin í Nurnberg var hann dæmdur í tuttugu ára fangelsi, ekki síst fyrir þrælahald í hergagnaframleiðslu. En ég ætla ekki að rekja feril þessa manns, þó tel ég sálarlíf hans mun merkilegra þeim athöfnum, sem það leiddi af sér.
Albert Speer var gáfaður, siðfágaður og óvenju hæfileikaríkur maður. En fyrst og fremst var hann tæknikrati. Og sem slíkur gat hann sveigt athafnir sínar að vilja fullkomlega siðlauss manns, Hitlers, sem trúði ekki á neitt, annað en óljóst en stórkostlegt hlutverk, sem hann taldi örlögin ætla sér. Hvernig gat maður eins og Speer lotið slíkum manni jafn skilyrðislaust og hann gerði, allt þar til Hitler ákvað að leggja leifar Þýskalands í rúst undir lok stríðsins? Og hvers vegna lét Hitler ekki taka hann að lífi, þegar hann loks vann gegn skipunum hans?
Sennilega fáum við aldrei einhlítt svar við þessum spurningum. Þó læðist sú hugsun að mér, að ástæðan fyrir lotningu Speers í garð Hitlers, hafi einfaldlega verið sú, að tæknikrati hlýtur ávallt að beygja sig fyrir valdi. Í því sér hann þann mikilleika, sem hann dreymir um, en veit að hann sjálfur hefur ekki til að bera. Á sama hátt verndar valdhafinn tæknikratann, einfaldlega vegna þess, að hann þarfnast hans til að koma draumórum sínum í framkvæmd. Þegar öllu er á botninn hvolft, er þetta spurning um teikniborð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mæli með að lesa bók Speers Inside the Third Reich. Þar segir hann frá mörgu af þessu sem þú spyrð um og vel þess virði að lesa ef þú vilt kynna þér meir. Hann skrifar hana í fangelsinu eftir stríð og er að gera upp hlutina án þess að reyna að réttlæta sjálfan sig.
AK-72, 26.3.2007 kl. 19:35
Þakka ábendinguna. Ég ætla að verða mér úti um bókina, en mun þó lesa hana með gagnrýnu hugarfari. Eins og fram kemur í þáttunum dregur Speer ýmislegt undan og bætir öðru við. Það breytir þó ekki því, að hann var sá af höfuðpaurum nasista, sem hvað mest reyndi að horfast í augu við eigin gerðir.
Pjetur Hafstein Lárusson, 26.3.2007 kl. 20:21
Eftir lestur þessarar bókar þarf að lesa bók Gittu Sereny um baráttu Speers við sannleikann.
Í myndinni var sýnt, þegar amerískir sérfræðingar ræddu við S skömmu eftir uppgjöf Þjóðverja, áður en hann var handtekinn. Þeir, sem sendir voru til að fá hjá honum upplýsingar f.o.f. um afleiðingar lofthernaðarins á hergagniðnað Þjóðverja voru þeir John K. Galbraith, George Ball og Paul Nitze.
Sereny segir í bókinni, og hefur eftir Nitze (lausleg þýðing):
"Burt Klein hafði hlustað á Speer og Ball, Nitze og Galbraith klukkustundum saman og gat loks ekki orða bundist.
"Herra Speer, ég skil yður ekki. Þér segið okkur, að þér hafið vitað árum saman, að stríðið væri tapað fyrir Þýzkaland. Árum saman segist þér hafa fylgst með hinu hræðilega makki þessara bófa, sem umkringdu Hitler - og yður. Persónulegur metnaður þeirra var metnaður hýenunnar, aðferðir þeirra aðferðir morðingja og siðferði þeirra siðferði götunnar. Þér vissuð þetta allt. Og samt voruð þér áfram meðal þeirra, og ekki bara það, heldur unnuð þér og skipulögðuð með þeim og studduð þá að fullu. Hvernig getið þér skýrt þetta? Hvernig réttlætt það? Hvernig getið þér horfst í augu við sjálfan yður?".
Þessi sena var í myndinni og lauk hér, en Sereny hafði meira eftir Nitze:
"Og Speer þagði drykklanga stund. Svo sagði hann: "Þér getið ekki skilið það. Þér getið blátt afram ekki gert yður í hugarlund, hvernig það er að búa við einræði. Þér getið ekki skilið hættuspilið, en umfram allt getið þér ekki skilið óttann, sem þetta byggist allt á. Og svo geri ég ekki ráðfyrir, að þér hafið nokkra hugmynd um persónutöfra manns eins Hitlers.”
"Jæja", sagði Nitze, "Burt stóð bara upp og gekk á dyr. Ég...ja þegar hér var komið hafði ég unnið fyrir tvo heiðarlega menn – heiðarlegustu menn, sem ég hef kynnst, Roosewelt og Truman. Og að vissu leyti hafði Speer rétt fyrir sér. Ég gerði mér vissulega ekki grein fyrir, hvaða áhrif slíkar kringumstæður gátu haft. Ekki þá”, bætti hann við og þagnaði.
Og Sereny bætir við, svona til skýringar: Nitze þjónaði mörgum forsetum Bandaríkjanna, allt frá Roosewelt til Nixons og Reagans.
Vigfús Magnússon, 2.4.2007 kl. 11:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.