Vinnuslys verkafólks

Á baksíðu Moggans í dag, er frétt af því, að  50 til 70 af hundraði vinnuslysa í landinu eigi sér stað meðal verkafólks.  Þetta þarf vitanlega ekki að koma á óvart.  Það er til að mynda augljóslega hættulegra að vinna á dekki báts úti í ballarhafi, oft í misjöfnum veðrum, en að spekúlera í nýjustu hagtölum uppi á Arnarhóli.  Hitt er svo annað mál, að samkvæmt fréttinni er ósérhæft starfsfólk eins og það er kallað, aðeins 7 til 11 af hundraði þeirra, sem á vinnumarkaði eru. 

Samkvæmt þessari frétt urðu 1038 karlar og 443 konur fyrir vinnuslysum árið 2005, en að sögn Kristins Tómassonar yfirlæknis Vinnueftirlitsins leikur rökstuddur grunur á, að slysatölurnar séu í raun mun hærri.  Tölurnar hér að ofan ná nefnilega aðeins yfir þau slys, sem tilkynnt eru til Vinnueftirlitsins.

Athygli vekur í þessu sambandi, að útlendingar eru þriðjungur þeirra, sem fyrir slysum verða, samkvæmt skýrslum Vinnueftirlitsins og má þó geta sér þess til, að meiri brestur sé að því, að slys, sem þeir verða fyrir, séu tilkynnt Vinnueftirlitinu.

Nú veit ég því miður ekki nákvæmlega, hversu stórt hlutfall verkafólks á Íslandi eru útlendingar, en tæpast er um að ræða mikið hærra hlutfall en tíunda hvern mann.  Þó er ljóst, að hlutfall þeirra meðal slasaðra, er nokkuð hátt.  Erum við Íslendingar, sem flestir hverjir þykjumst harla fordómalausir gagnvart annarra þjóða fólki, ef til vill farnir að slá slöku við, varðandi öryggi fólks á vinnustöðum, sé um útlent starfsfólk að ræða?  Spyr sá, sem ekki veit.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband