Ógna innflytjendur íslenskri menningu?

Það er slæmur siður okkar Íslendinga, að þjarka um allt milli himins og jarðar, án þess að koma okkur saman um grundvallaratriði þess, sem um er deilt hverju sinni.  Nú um stundir er þannig mikið um það rifist, hvort íslenskri menningu stafi hætta af vaxandi fjölda útlendinga á Íslandi.  En tvö mjög mikilvæg grundvallaratriði eru látin liggja milli hluta í þessu sambandi.  Annars vegar er það spurningin um það, hvað sé íslensk menning og hins vegar, hverjir séu útlendingar.

Ef við nú göngum frá því sem gefnu, að sérstök menning, svo sem þjóðmenning, sé allt það atferli, sem meðvitað og ómeðvitað tíðkast hjá ákveðnum hópi, t.d. heilli þjóð, svo sem verslunarhættir, umgengnishættir, listsköpun, búnaðarstefna, fjölmiðlun o.s.frv., þá er ljóst, að verulega hefur verið vegið að séríslenskri menningu á undanförnum áratugum.  Þannig miðast verslunarhættirnir ekki lengur eingöngu við þær hefðir, sem mótast hafa í landinu, frá því íslensk verslunarstétt varð til á 19. öld.  EES-sáttmálinn gjörbreytti því og einokun í matvælaverslun hefur að sumu leyti fært þjóðina aftur til 17. aldar.  Listsköpun þjóðarinnar hefur tekið miklum breytingum, enda eðlilegt, að hver kynslóð leiti sér nýrra leiða í þeim efnum. Þá eru umgengnishættir mun frjálslegri nú en bara fyrir tveimur áratugum, eða svo. Og hvað íslenska fjölmiðlun varðar, eða réttara sagt þann þátt hennar, sem almenningur notar mest, þ.e.a.s. sjónvarpið, þá er það ekki íslenskt nema að óverulegum hluta, heldur fyrst og fremst amerískt og að nokkrum hluta enskt.

Allt byggist þetta á þróun, sem við Íslendingar höfum sjálfir mótað, eða látið yfir okkur ganga, eftir atvikum.  Þeim fer sífellt fjölgandi, sem leita sér að mestu eða öllu leyti afþreyingar í amerísku sjónvarpsefni.  Er ekki ráð, að velta því fyrir sér, hvort þetta sé ekki meiri ógnun við íslenska menningu, en innfluttningur fólks af erlendum uppruna?

Og hve lengi eru innflytjendur útlendingar?  Ég leyfi mér að efast um, að sá maður, sem er sæmilega mæltur á íslenska tungu, sé útlendingur, eins þótt hann hafi slitið barnskónum suður í Ghana eða austur í Póllandi.  Sjálfur hef ég búið í Svíþjóð.  Á einum stað, þar sem ég vann þar í landi, vorum við vinnufélagrnir allir norrænir, utan einn.  Hann var Austuríkismaður.  En hann hélt því fram án þess að blána eða blikna, að í raun væri hann miklu norrænni en við hin.  Rökin voru þessi: „Þið eruð bara norræn, vegna þess, að þið fæddust á Norðurlöndum.  Ég er norrænn, venga þess, að ég valdi mér það hlutskipti i lífinu."  Þetta voru rök, sem erfitt var að hrekja.

Auðvitað mun innflutningur fólks til Íslands breyta menningu þjóðarinnar.  En sé rétt að málum staðið, verða þær breytingar öllum til góðs.  Ef hins vegar sá hópur heldur áfram að stækka, sem sækir „andlega" næringu í útlent sjónvarpsrusl og íslenskar stælingar á því, þá mun menning okkar verða fyrir óbætanlegu tjóni.  Þættir Jay Lenos eru gott dæmi.  Þeir eru vafalaust ágætis afþreying fyrir vissa hópa Ameríkana.  En þeir eru Íslendingum framandi, vegna þess, að þar er ekki fjallað um okkar veruleika.  Eða er ef til vill svo komið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Örn Hauksson

Ég er fyrir aukinni þjóðar fljölbreytni hér á landi. Ég vildi óska að það væri svona "china town" einhversstaðar í borginni þar sem maður gæti nálgast vörur og efni frá mismunandi löndum sem ekki er hægt að fá annarsstaðar.

Við Íslendingar höfum alltaf sópað að okkur menningar molum þegar útlendingar festa rætur hérna. Mesta sprengingin varð þegar Bandaríkja her nam land og við tókum öllu því sem þeir höfðu fram að færa fagnandi hendi. Íslendingar hafa verið menningarsnauð þjóð allt fram á 20. öldina þegar Fjallkonan var fundin upp og einhverjum datt í hug að byrja nota víkinga táknmyndir í auglýsingar og skraut. Hekla og Geysir príddu 90% af öllum vörum ásamt fjallkonunni sem var stolin hugmynd þar að auki. Öll þau minni sem við hömpum sem sér íslensku voru sett fram á síðustu öld og við reynum að telja okkur í trú um að við höfum alltaf verið þannig, stolt af okkar uppruna og menningu sem var ekki til staðar. Fleiri útlendinga segi ég.

Ómar Örn Hauksson, 11.3.2007 kl. 16:12

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sammála.  Fjölbreytileikinn er eftirsóknarverður. 

Varðandi bandaríska afþreygingu þá held ég stundum að hún smellpassi, stundum, í íslensku þjóðfélagi.

Takk fyrir pistilinn

Jenný Anna Baldursdóttir, 11.3.2007 kl. 18:08

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Þú mælir af mikilli visku!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 11.3.2007 kl. 19:28

4 Smámynd: Ómar Örn Hauksson

Ég veit ekki til þess að neitt land hafi misst einhvern menningar arf við það að hleypa inn fleiri menningar hópum. Við fáum bara fleiri skrúðgöngur og hátíðardaga en 17 júní. 

Ómar Örn Hauksson, 12.3.2007 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband