Hvers vegna sameinast grasrótin ekki?

Nú bendir allt til þess, að framboðin á landsvísu verði sjö í komandi þingkosningum.  Fjórflokkurinn mun að vanda bjóða fram í fernu lagi og Frjálslyndi flokkurinn stefnir á framboð í öllum kjördæmum.  Hann mun svo, ef að líkum lætur, renna inn í fjórflokkinn á næsta kjörtímabili og þá með inngöngu í Sjálfstæðisflokkinn.  Og þá eru eftir tvö framboð; annars vegar umhverfissinna og hins vegar öryrkja og eldri borgara. 

Ég verð að viðurkenna, að eitt af því, sem vefst fyrir mér, er það, að þeir tveir síðast nefndu skuli ekki bjóða fram saman.  Sjálfsagt er ýmislegt, sem aðskilur þá, en hitt hygg ég, að sé fleira, sem sameinar þá.  Og því má ekki gleyma, að framboð umhverfissinna og framboð eldri borgara og öryrkja eru vaxin af sömu rót, sem sagt skilningsleysi fjórflokksins á vaxandi tilfinningu fólks fyrir því, að tímarnir séu að breytast.  Væri ekki hugsanlegur ávinningur í því, að þessir aðilar ræði saman?  Það er nú einu sinni svo, að efnishyggjan er orsök þess, að menn vanvirða náttúruna og þessi sama efnishyggjan er megin ástæða þess, að fjórflokkurinn hefur hlunnfarið  eldri borgara og öryrkja.  Og með leyfi að spyrja; er til sterkara sameiningarafl, en sameiginlegur andstæðingur?

Grasrótahreyfingarnar tvær, umhverfissinnar og eldri borgarar og öryrkjar ættu að minnast þess, að tún nýtist betur en strá á stangli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvers vegna sameinast grasrótin ekki?? Ástæðan: 

AF því að það er of mikið af smákóngum sem geta ekki brotið odd af oflæti sínu og viðurkennt að einhverjir eru fremri en þeir sjálfir og betur til þess fallnir að gegna forystu í grasrótarsamtökum. Fólkið er þröngsýnt og á þess vegna erfiðara með að ná yfirsýn yfir það verkefni að ná samstöðu meðal þeirra sem gætu náð saman og náð árangri.

klakinn (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 23:51

2 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Ég held að það séu nú ekki nein smákóngakeppni sem sé hindrun fyrir sameiningu framboða. Það hlýtur að vera þessum framboðum keppikefli að velja fólk til forystu sem nýtur trausts og er líklegt til að afla framboðinu fylgi. Varðandi að framboðin ættu að sameinast þá hljóta málefnin að vera það sem skiptir máli í því efni. 

Lárus Vilhjálmsson, 8.3.2007 kl. 08:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband