6.3.2007 | 10:29
"Sérframboð" - rödd grasrótarinnar
Orðið sérframboð" lætur í eðli sínu dálítið ólýðræðislega í munni, enda er það helst notað af andstæðingum þeirra, sem fyrir viðkomandi framboðum standa. Það felur í sér, að slíkt framboð snúist um eitt afmarkað málefni, í besta falli tvö eða þrjú. Að öðru leyti séu fulltrúar viðkomandi framboðs ómarktækir í þjóðmálaumræðunni.
Framboðum sem þessum hefur fjölgað mjög á undanförnum árum. Eitt einkenna þeirra er, að þau ná oftast mun meira fylgi í skoðanakönnunum en sem nemur því fylgi, sem talið er upp úr kjörkössunum. Það breytir ekki því, að fjölgun þessara framboða er umhugsunarefni og ætti alveg sérstaklega að vera það fyrir forystumenn fjórflokksins. Hvernig stendur t.d. á því, að nátturuverndarsinnar treysta Vinstri grænum ekki betur en svo, að þeir vilja frekar stofna til sérstaks framboðs, en að vinna með þeim? Og hvað veldur því, að öryrkjar og eftirlaunaþegar fylkja sér ekki í raðir Samfylkingarmanna?
Nú veit ég, að ýmsir svara því til, að það sé ekkert samasemmerki milli þess að vera náttúruverndarsinni og hins, að vera sósíalisti, né heldur þess, að framfleyta sér á eftirlaunum eða tryggingagreiðslum og þess að vera krati. En það breytir ekki því, að hvorki náttúruverndarsinnar né öryrkjar og eftirlaunafólk, telja sig geta treyst fjórflokknum fyrir hagsmunum sínum og hugðarefnum. Það er kjarni málsins.
Vissulega er það rétt, að þeir flokkar, sem bjóða fram til þings í krafti einstakra mála, eru gjarnan nokkuð einhæfir í málflutningi sínum. En er það eitthvað sérstakt? Hvað um fjórflokkinn? Ég hef ekki orðið þess var, undanfarna áratugi, að hann sé uppspretta frjórra umræðna. Sannleikurinn er sá, að hann er staðnaður í sérhagsmunagæslu þingmanna og þeirra, sem gera þá út af örkinni.
Hin svokölluðu sérframboð" hafa hingað til ekki átt sér langa lífdaga, jafnvel þótt þau hafi náð fulltrúum inn á þing. En þeim hefur stundum tekist að vekja fjórflokkinn af hans djúpa þyrnirósarsvefni og minnt hann á, að þrátt fyrir allt, er það fólkið í landinu, sem kýs til alþingis og því ef til vill ekki úr vegi að hlusta á það. Þetta, sem margir kalla í daglegu tali sérframboð" eru í raun grasrótarframboð. Skyldi ekki vera kominn tími til þess, að fjórflokkurinn skilji þau einföldu sannindi, að þótt gras sölni að hausti, þá rís það aftur úr sverði að vori?
Athugasemdir
Er þá skyldleiki með orðunum "sérframboð" og "sértrúarsöfnuður?"
Erlingur Brynjolfsson..http://erlingur.net (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 12:17
...Erlingur , bæði eru "sér"...
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 6.3.2007 kl. 21:33
"Sérframboð" er yfirleitt notað í niðrandi tón þeirra sem geðjast ekki að fjölgun flokka. Með orðinu er reynt að koma því að hjá fólki að hér sé um sérvitringa að ræða sem þurfa helst alltaf að vera öðruvísi og þrífast ekki í samneyti við "venjulegt" fólk.
Það er löngu tímabært að fólk geri sér grein fyrir því að það er öllum frjálst að mynda nýja flokka og þess vegna má líka leggja þá spilltu niður, enda í sumum tilvikum löngu tímabært. Fýla út í nýja flokka er því algerlega réttlaus.
Haukur Nikulásson, 7.3.2007 kl. 08:14
Þetta er þörf umræða. Sjálfstæðisflokkurinn var "sérframboð" þegar hann var stofnaður 1929 ef það er haft í huga að stefna hans snerist um tvö "sérmál", sjálfstæði þjóðarinnar og sjálfstæði einstaklingsins. Þessi "sérmál" höfðu síðan áhrif á stefnu flokksins í tengdum málum.
Það var eðlilegt á þessum tíma að gera sjálfstæði að höfuðmáli því lungann úr öldinni, allt frá baráttu Ghandis til falls Sovétríkjanna var 20. öldin öld sjálfstæðisbaráttu þjóðanna. En þau mál heyra nú fortíðinni til.
Nú er komin 21. öldin, öld umhverfismálanna, og þá er alveg jafn eðlilegt að til verði svokallað "sérframboð" um þau mál. Og í raun eru umhverfismálin ekkert frekar "sérmál" en sjálfstæðismálin fyrir 75 árum. Ný sýn á umhverfismálin skilar framboði sem er margra mála framboð í raun.
Þessi breytta sýn sem byggist á grunni umhverfismálanna kallar á nýja stefnu í menntamálum, byggðamálum, landbúnaðarmálum, sjávarútvegsmálum, iðnaðarmálum, samgöngumálum og jafnvel nýjum áherslum í utanríkismálum.
Framboð með umhverfismál sem kjölfestu og grunn að margra mála stefnu er því ekki tímaskekkja eins og gömlu flokkarnir eru að verða, heldur brýn nauðsyn til þess að þjóðin vakni og átti sig á að það eru nýir tímar, - aðrir tímar en þegar gömlu flokkarnir voru stofnaðir.
Þeir tímar kalla á nýja og breytta sýn sem er nauðsynleg á öld umhverfismálanna, 21. öldinni.
Ómar Ragnarsson, 7.3.2007 kl. 10:18
Ég er sammála því, að umhverfismálin eru helsta viðfangsefni komandi tíma. En það er eins gott, að menn geri sér grein fyrir því, að umhyggja fyrir náttúrunni skarast á við efnishyggju þá, sem tröllríður okkur nú um stundir.
Aðeins smáathugasemd varðandi stofnun Sjálfstæðisflokksins 1929. Sjálfstæðismenn halda því enn þann dag í dag á lofti, að nafn flokksins tengist sjálfstæðisbaráttunni gegn Dönum. Það er rangt, enda lauk henni með Sambandslagasáttmálanum 1. des. 1918. Þann dag tóku Íslendingar stjórn allra sinna mála í eigin hendur, einnig utanríkismála. Danir fóru aðeins með framkvæmd þeirra í umboði Íslendinga, svo lengi sem þeim síðarnefndu þóknaðist það.
Sá flokkur, sem nú kallar sig Sjálfstæðisflokk er samsuða úr gamla Íhaldsflokknum og Frjálslynda flokknum. Nafnið átti að vera skírskotun til gamla Sjálfstæðisflokksins sem vissulega tók þátt í sjálfstæðisbaráttunni á heimastjórnartímanum, en í raun eru þar engin tengsl. Eins fóru kommarnir að, þegar þeir kölluðu málgagn sitt Þjóðviljann. Skúli Thoroddsen hafði gefið út blað undir því nafni og með því að nota það, voru þeir að reyna að tengja sig margnefndri sjálfstæðisbaráttu.
Pjetur Hafstein Lárusson, 7.3.2007 kl. 13:15
Blessaður félagi Erlingur. Allt er nú sér á parti, sérstaklega hjá oss sérlunduðum.
Pjetur Hafstein Lárusson, 7.3.2007 kl. 13:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.