12.5.2014 | 08:55
Hugleiðingar um stjórnmál
Kristjáni frá Djúpalæk lét það léttar en flestum öðrum skáldum, að komast að kjarna málsins með einföldum og skýrum hætti. Í ljóðabókinni Þrílækir, sem hann sendi frá sér árið 1972 gefur að líta lítið ljóð, undir titlinum Flokkar. Það hljóðar svo:
Flokkur er fólk,
segja flokkar okkur.
Aftur á móti
er fólk ekki flokkur.
En forusta flokka
er fyrirtak.
Öllum miðar þeim áfram
afturábak.
Á þeim tímum þegar Kristján frá Djúpalæk orti þetta ljóð, heyrðust að vísu þær raddir, sem sögðu lýðræðið og flokksræðið fara heldur illa saman. Samt hafði orðið stjórnmálastétt ekki enn heyrst á tungu nokkurs manns. Nú, aðeins rúmum fjörutíu árum síðar, eru meira að segja stjórnmálamennirnir sjálfir farnir að tala um sig sem sérstaka stétt; stjórnmálastétt.
Ætti þetta ekki að vekja almenning til umhugsunar og umræðna um það, hvað lýðræði er? Getur hugsast, að eftir allt það tjón, á sviði stjórnmála, efnahagsmála en fyrst og fremst í siðferðilegum skilningi, sem orðið hefur á undanförnum árum, séu menn enn reiðubúnir til að túlka lýðræðið á þann hátt að það feli ekkert í sér, annað en rétt almennings til að afsala sér völdum í hendur stjórnmálaflokka á fjögurra ára fresti.
Góðu heilli má sjá viss merki breytinga. Almenn þátttaka í störfum stjórnmálaflokka er svo hverfandi, að þeir eru farnir að auglýsa eftir hugmyndum síðustu vikur fyrir kosningar. Félagsstörfin sem stjórnmálaflokkarnir höfðu áður að stærstum hluta í sínum höndum, hafa nú færst til fjölmargra áhugamannahópa, m.a. um einstök velferðarmál, náttúruvernd og önnur hugðarefni. Er ekki ráð, að menn leiði hugann að því, hvort ekki megi með einhverjum hætti tryggja aðkomu slíkra hópa að stefnumótun og ákvarðanatöku varðandi þau málefni, sem þeir einbeita sér að? Ég er ekki frá því, að þetta væri tilraunarinnar virði.
(þessi grein birtist í Sunnlenska fréttablaðinu þann 7. maí s.l.)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.