1.5.2014 | 12:20
Til umhugsunar
Nú nálgast sveitarstjórnarkosningarnar og er því tímabært að hrista af sér doðann og velta fyrir sér hvaða þýðingu kosningar sem þessar hafa fyrir hvert og eitt okkar. Stutt er síðan þjóðin upplifði hrun drauma sinna og veruleika. Í kjölfar þess hefur mikið verið rætt um lýðræði lýðræðislega umræðu, sem skortir og ábyrgð okkar kjósenda á því umboði sem við veitum stjórnmálamönnum með atkvæði okkar. Öll þurfum við að velta því fyrir okkur hvaða kröfur við gerum til frambjóðenda og stjórnmálaflokka, sem og hvaða kröfur við kjósendur þurfum að gera til okkar sjálfra.
Hvað snýr að því fyrra er ljóst að heiðarleiki og auðmýkt eru grundvallarkröfur sem við eigum að gera til frambjóðenda. Reynslan hefur sýnt að þar er víða pottur brotinn. Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um gagnsæi í pólitík hefur það sýnt sig vera skrúðmælgi ein, enda eru kjötkatlar ekki gegnsæir. Atkvæði okkar á að vera varðstaða okkar um lýðræðið, þess vegna má aldrei kjósa af gömlum vana. Það er veikleikamerki á lýðræðinu ef einstakir flokkar eða frambjóðendur telja sig geta gengið að atkvæði okkar vísu. Almenningur á ekki að þurfa að óttast stjórnmálamenn en á að gera þá lámarkskröfu að þeir sanni sig verðuga þess trausts að vera kosnir, því það er mikil ábyrgð í því fólgin að véla um annarra manna mál hvort heldur er í litlu eða stóru samfélagi. Það sem er hættulegast lýðræðinu er þegar stjórnmálamenn telja sig geta gengið að atkvæði okkar vísu. Hver sá sem greiðir atkvæði í kosningum gegnir því meginhlutverki að standa vörð um lýðræðisleg gildi. Sá sem býður sig fram til þjónustu við almenning á ekki að komast upp með það að brosa framan í fólk fjórða hvert ár, hann á að svitna í fjögur á samfleytt.
(Þessi pistill birtist í Sunnlenska fréttablaðinu þ. 30. apríl s.l.)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.