1.3.2007 | 10:45
Kjölturiddari þeysir út í Örfirsey
Röskir menn, Framsóknarmenn. Hver virðir ekki riddarann hugprúða, sem geysist fram á vígvöllinn, eins þótt sverðið sé fallið úr hendi hans, brynjan brostin og skjöldurinn klofinn? Ha, var einhver að tala um Don Kíkóta? Nú jæja, en það skiptir ekki máli, hvort ráðist er gegn óvígum fjandaflokki eða vindmyllum; það þarf ákveðið hugrekki til þess arna. Og það er nauðsynlegt, að geta þanið út bringuna, svo maður sýnist stærri og sterkari, en raun ber vitni, eins þótt maður sé í raun og veru bara lítill kjöltusveinn.
Í pólitíkinni þeysa menn ekki fram á vígvöllinn í bókstaflegri merkingu, nema þá þeir hafi misst tökin eins og Kanar í Írak. Aftur á móti tíðkast þar, að slá um sig með stórkallalegu tali. Og þá þykir nú ekki amalegt, að varpa fram svo stórkostlegum hugmyndum, að allir fái glýju í augun.
Þessi eini borgarfulltrúi, sem Framsóknarmenn rétt mörðu inn í kosningunum í fyrra á 4.056 atkvæðum (85.618 voru á kjörskrá), fer jafnan mikinn. Hann veit sem er, að betra er að veifa röngu tré en öngvu. Sjálfstæðisflokknum hugkvæmdist að launa honum að hafa komið sér í meirihluta, með því, m.a., að gera hann að formanni Faxaflóahafna. Þá stöðu nýtir hann nú, til að koma fram þeirri hugmynd, að hefja stórkostlega landfyllingu í Örfirsey og reisa þar 4000 manna íbúðahverfi.
Þar sem þessi tala er nokkurn vegin jöfn kjörfylgi Framsóknar í Reykjavík, læðist að mér sú hugsun, að þarna, á þessu einna versta veðravíti borgarinnar, standi til að koma fyrir öllum Framsóknarmönnum staðarins. Á þeirri hugmynd er reyndar sá galli, að jarðvísindamenn hafa bent á, að hverfi þetta muni verða landsigi að bráð, auk þess sem hætta á tjóni af völdum jarðskjálfta er mun meiri á landfyllingu en gengur og gerist. Og ég verð nú bara að segja það alveg eins og er, að sem náttúruverndarsinni er ég alfarið á móti því, að Framsóknarmönnum sé stefnt í meiri voða en nauðsyn krefur. Þetta er nú einu sinni tegund, sem virðist vera í þann veginn að komast á geirfuglastigið.....
En hæst glymur jafnan í tómri tunnu. Úr kjöltu íhaldsins berast nú hljóð mikil og flytja þann boðskap, að ekkert sé að marka þessa vísindamenn. Kannast nokkur við tóninn úr umræðunum um Kárahnjúka og Reyðarfjörð?
Athugasemdir
Ég vann eitt sinn um margra ára skeið í fyrirtæki í Örfirisey og tek undir það að þar er um mesta veðravíti á höfuðborgarsvæðinu að ræða. Raunar er þar hreint helvíti í mikilli norðanátt, þannig að íbúðarbyggð þarna er nánast hrein heimska. Auk þess fer byggð þarna í bólakaf þegar jöklar bráðna eftir nokkra áratugi skildst mér á sérfræðingum. Umræddur borgarfulltrúi Framsóknarflokksins ætlar sér víst líka að endurleggja Fúlalæk um Lækjargötuna með miklum tilkostnaði, he, he. Ég hef lesið Don Kíkóta og finnst viðeigandi hjá þér að líkja Birni Inga við hann.
Stefán (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 12:15
Sælir Pétur og Stefán,
var það ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem kynnti fyrst með miklum fagnaðarlúðrum hugmyndir sínar um eyjabyggð? Ég man ekki eftir að B-listi haf lagt mikla áherslu á þetta í sinni kosningabaráttu. Var með hugmyndir að vísu um landfyllingu fyrir flugvöllinn, en töluðu annars mest um Sundabrautina og frístundastyrk og niðurgreiðslu til foreldra.
Eygló Þóra Harðardóttir, 1.3.2007 kl. 15:48
Kæri Pétur
Þrátt fyrir orðskrúðið, þá er innihald skrifa þinna næsta ómerkilegt nöldur. Verktakafyrirtæki standa í röðum og bíða eftir því að fá tækifæri eins og þarna eru kynnt. Vindur er þarna vissulega, eins og á öllu nesinu, og vesturströnd Reykjavíkur. Það sem fer mest í taugarnar á þér, er að það skyldi vera fulltrúi framsóknar sem kom fram fyrir hönd Faxaflóahafna. Ætli það hefði ekki orðið önnur skrif um málið, ef að þinn pólitíski samferðamaður hefði tjáð sig um sama atriði? 'Eg held, að þú hefðir orðið góður gyðingahatari í Þýskalandi milli styrjalda, líklega meðlimur í brúnstökkunum. Þú kemur nefnilega upp um þig, hvað þú ert mikið hjarðdýr, sem fylgir í blindu, hvert sem hjörðin hleypur. Hjörðin hefur ákveðið að þessi miðjuflokkur sé ábyrgur fyrir flestu sem ranglega hefur farið á Íslandi til þessa. Staðreyndin er hins vegar sú að miðjuflokkur af þessari tegund er líklegri til þess að eiga aðild að meirihluta en aðrir flokkar. Af þeirri einföldu ástæðu hefur Framsóknarflokkurinn setið svo lengi í aðild að ríkissjórn. Það er auðvitað þessum litla flokki að kenna, að hér er allt í kaldakoli, og að íslendingar hafa aldrei í sögunni búið við aðra eins velmegun og öryggi. Svei þessum andskotum!
Jónas Guðmundsson (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 18:27
Eitt smá atriði í viðbót, varðandi framkvæmdir að Kárahnjúkum, og i Reyðarfirði. Þá er það nú svo, að þetta kjördæmi sem fyrrum var nánast eingöngu landbúnaðarsvæði, upplifir mestu uppgangstíma sögu sinnar. Það er hægt að álíta sem svo, af skrifum þínum, að þú hafir eitthvað við þetta að athuga. Viltu ekki útskýra þetta komment þitt "Kannast nokkur við tóninn úr umræðunum um Kárahnjúka og Reyðarfjörð?" Viltu rökstyðja á hvaða hátt ekkert var að marka vísindamenn varðandi þessar framkvæmdir. Ég bendi á að nú lítur út fyrir það að álverið fari í gang á réttum tíma, og gorka til þess, sé til reiðu á réttum tíma. Svo mér er spurn? Hverjir höfðu rangt fyrir sér, og hvenær, varðandi þær framkvæmdir ?
Jónas Guðmundsson (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 18:49
Leiðrétting: " og orka til þess, sé til reiðu á réttum tíma"
Jónas Guðmundsson (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 19:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.