28.2.2007 | 13:17
Er maðurinn skynsemisvera?
Er maðurinn, þessi með stóra emminu, skynsemisvera? Svo segja ýmsir. En ég hef mínar efasemdir í þeim efnum. Ég held nefnilega, að tilfinningarnar móti líf okkar mun meira en skynsemin. Tökum einfalt dæmi: Nonni þráði það umfram annað, að eignast einbýlishús í Hafnarfirði. Hann átti litla einstaklingsíbúð í blokk úti á Seltjarnarnesi, en það var ljóst, að jafnvel þótt hann fengi gott verði fyrir hana, nægði það ekki fyrir kaupunum á einbýlishúsi í Hafnarfirði. En það dró ekki úr þrá Nonna eftir einbýlishúsinu.
Þrátt fyrir þetta voru ekki öll sund lokuð. Nonni er í vel launaðri vinnu og hann hefur alltaf staðið í skilum við bankann sinn. Skynsemin leiddi hann því á fund bankafulltrúans hans. Þeir settust niður og reiknuðu dæmið. Jú, Nonni skyldi bara selja íbúðina sína og svipast um eftir einbýlishúsi suður í Hafnarfirði; bankinn hlypi undir bagga með honum. Og þetta gekk eftir.
Nonni beitti sem sagt skynseminni til að losna við íbúðina á Seltjarnarnesi og velja sér hús í Hafnarfirði. Sömuleiðis beitti hann skynseminni til að útvega sér það fjármagn, sem hann þurfti. Allt var þetta gert af mikilli skynsemi, enda er Nonni gæddur henni í ríkum mæli. En það var ekki skynsemin, sem rak hann til Hafnarfjarðar, heldur tilfinningin.
Niðurstaðan er því þessi: Nonni notaði skynsemina, en eingöngu til þess, að uppfylla tilfinningalega þrá sína. Skynsemin er m.ö.o. aðeins tæki, til að ná fram settu marki. Þetta þýðir, að Nonni er tilfinningavera, að vísu skyni gædd tilfinningavera, en það er annar handleggur.
Þetta litla dæmi er aðeins eitt af fjölmörgum, sem nota má, til að sýna fram á, að maðurinn sé tilfinningavera en ekki skynsemisvera. Þannig höfða auglýsingastofur ekki til skynsemi okkar heldur tilfinninga, hvort heldur er í þeim tilgangi, að fá okkur til að kaupa tiltekna vöru eða kjósa ákveðinn stjórnmálaflokk.
Fyrir skömmu skrifaði ég hér á síðunni um nýjustu ljóðabók Hannesar Péturssonar. Ég gríp reglulega til hennar og les stöku ljóð, mér til mikillar ánægju. Það fullnægir ákveðnum þætti í tilfinningalífi mínu, þ.e.a.s. fegurðarþránni. En ég skal fúslega játa, að þessi lestur er ekki skynsamleg iðja, nema það sé beinlínis skynsamlegt, að láta sér líða vel. Um það má að vísu deila, en ég hætti mér ekki út á þann hála ís að sinni.
Athugasemdir
Algerlega sammála - maðurinn er tilfinningavera sem notast við skynsemina til að rökstyðja langanir sínar og þrár.
Halldóra Halldórsdóttir, 28.2.2007 kl. 14:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.