27.2.2007 | 11:44
Er Ísland orðið að vígvelli?
Á síðustu jólaföstu fórst ungur maður í bílslysi á Vesturlandsvegi. Mikil umferð var og átti lögregla og sjúkraflutningamenn erfitt með að sinna störfum sínum vegna ruddaskapar vegfarenda. Fólki stóð á sama um örlög þess, sem þarna lét líf sinn; það þurfti að komast leiðar sinnar og öskraði jafnvel ókvæðisorð að lögreglumönnum. Hvern fjandann voru þeir að tefja fólk, sem þurfti að komast leiðar sinnar?
Fjölmiðlar fjölluðu að vonum um þetta og þjóðinni virtist brugðið. Nokkrir hinna æstu vegfarenda, sem gert höfðu hróp að lögreglunni, höfðu manndóm í sér til að hringja í fjölmiðla daginn eftir slysið, og biðjast afsökunar. Víst ber að virða það. En lærði þjóðin sína lexíu? Því miður virðist það ekki vera tilfellið.
Nú um helgina var maður á göngu um eitt af úthverfum Reykjavíkur. Bar þá að fjögur ungmenni á bifreið, og gerðu þau hróp að manninum. Hann sá sér þann kost vænstan að leggja á flótta, en féll þá í opinn brunn frá Vatnsveitu Reykjavíkur. Út af fyrir sig er það íhugunarefni, að borgin skuli ekki ganga betur frá eftir sig, en það er annað mál. Manninum fókst við illan leik að komast að umferðargötu illa slasaður og vitanlega alblóðugur. Þannig á sig kominn reyndi hann að stöðva akandi vegfarendur. En það varð bið á því að einhver kæmi honum til bjargar. Að minnsta kosti tveir eða þrír leigubílstjórar, sem sannanlega sáu manninn, óku á brott.
Afsakið að ég skuli spyrja; er Ísland orðið að vígvelli, þar sem lífshættulegt telst, að rétta náunga sínum hjálparhönd, jafnvel í neyð?
Athugasemdir
Já því miður virðist þetta vera raunin að hér á landi virðumst við vera að taka á okkur sama skeytingarleysi fyrir náunganum eins og þekkist í stórborgum erlendis.
Sigurður Eðvaldsson (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 17:35
Ég held að upp til hópa séum við íslendingar með smákóngagenið í okkur. Það eru óskup fá okkar, sem látum okkur varða náungann. Við erum flest kóngar í okkar litla ríki, þannig hvað kemur okkur við hvað hendir kónginn í næsta ríki? Við þekkjum hann ekki. Flýttu þér heim í litla ríkið þitt helst á ólöglegum hraða, en þú veist að það kemur aldrei neitt fyrir Þjóðhöfðingjann
Fishandchips, 27.2.2007 kl. 21:05
var einmitt að horfa á eltingarleikinn ef leik skuli kalla við einhvern sjúkan mann sem keyrði eins og brjálaður væri í gegnum kópavog, það er eitthvað að í þessu þjóðfélagi þó lítið sé ef menn gera svona lagað. hvað er hægt að gera við svona fólk?? loka inni til æviloka?
Haukur Kristinsson, 28.2.2007 kl. 04:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.