24.2.2007 | 23:46
Er stjórnarsamstarf Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna líkleg?
Stjórnmál eru full af mótsögnum. Stundum ganga þessar mótsagnir jafnvel svo langt, að þær virðast í fullkomnu ósamræmi við allt það, sem menn eru vanir að taka gott og gilt. Þannig væri það í hæsta máta rökrétt, nú þegar kosningar nálgast, að stjórnarandstaðan kepptist einfaldlega við, að steypa núverandi ríkisstjórn og deila sjálf með sér völdum. En nú hefur Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna, kveðið upp úr með það, á landsfundi flokksins, að hann geti allt eins hugsað sér, að mynda ríkisstjórn með öðrum hvorum núverandi stjórnarflokka.
Miðað við stöðu Framsóknarflokksins er ljóst, að Steingrímur er ekki að gefa honum undir fótinn, heldur Sjálfstæðisflokknum. Þar með yrði til ríkisstjórn þeirra flokka, sem lengst bil er á milli á pólitísku landakorti þjóðarinnar. Við fyrstu sýn gæti þetta virst fráleitt, en sé betur að gáð, er þetta ef til vill ekki svo vitlaust.
Vinstri grænir og Sjálfstæðismenn eru á sama máli hvað varðar Evrópumálin. Flokkarnir eru á öndverðum meiði varðandi stóriðju, en fjöldi Sjálfstæðismanna er að hverfa frá stóriðjustefnunni. Þeir hafa einfaldlega ekki áhuga á því, að fylgi flokksins falli niður í 10% eins og Katrín Fjelsted hefur bent á. Þá er eftir skatta- og kjarapólitíkin. Það hefur sjaldnast vafist fyrir stjórnmálaflokkum, að semja um hana, þegar til stjórnarmyndunar kemur.
En hvað um utanríkisstefnuna? Það er einfallt mál; það þarf ekki neina sérstaka söguþekkingu til að gera sér ljóst, að utanríkisstefna verður til meðal stórvelda. Smærri ríki fljóta einfaldlega með straumnum.
Þrátt fyrir hugsanlega samsteypustjórn Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins, hlýtur sú spurning þó að vakna, hvað mæli því í mót, að stjórnarandstaðan myndir ríkisstjórn eftir kosningar, hljóti hún til þess þingstyrk. Hvað Frjálslyndaflokkinn varðar er svarið einfalt; hann er úr leik, eftir það sem á undan er gengið síðustu vikurnar. En hvað um Samfylkinguna?
Svo gæti farið, að Samfylkingin og Vinstri grænir næðu hreinum meirihluta á þingi, þótt tæpast sé það líklegt. En hver er stefna Samfylkingarinnar? Það er tæpast seinna vænna, að hún komi í ljós ef flokkurinn ætlar sér sæti í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.