22.2.2007 | 23:09
"Húrra, nú ætti að vera ball" -- á Hótel Sögu
Þau gleðilegu tíðindi hafa borist að klámráðstefna, sem til stóð að halda í Reykjavík, hafi verið blásin af. Ástæðan mun vera sú, að Hótel Saga, sem hafði tekið að sér að hýsa ráðstefnugesti, hætti við það. Það ber að þakka forráðamönnum hótelsins þá ákvörðun. Þá er sérstök ástæða til að þakka Villa borgarstjóra fyrir einarða andstöðu við að ráðstefna þessi færi fram í Reykjavík. Það skemmtilega í því sambandi er, að boragrstjóri bar lítt fyrir sig rökum í þessu sambandi; hér voru það sýnilega tilfinningarnar sem réðu. Það er ánægjulegt, þegar stjórnmálamenn hafa hjartað á réttum stað.
Í gærkvöldi sendi ég út vísu eftir Nile Ferlin í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. Lesendum bloggsíðu minnar fækkaði snarlega. En í trausti þess, að þeir fáu, sem eftir voru, séu góðir lesendur, læt ég vængjaþyt Pegasusar enn berast mönnum til eyra undir nóttina. Að þessu sinni varð fyrir valinu ljóðið Umsókn eftir Jón Helgason. Eins og fram kemur í Kvæðabók Jóns, (heildarsafn 1986), er ljóð þetta ort, eftir að landi einn, sem var við nám í kóngsins København, hafði sent Sáttmálasjóði heldur átakanlega umsókn um fjárstyrk.
Umsókn
Ljóð eftir Jón Helgason
Hér kem ég með umsókn, einn aumur þræll
og allt að því hungurmorða,
ég veit ekki hvað er að vera sæll,
ég veit ekki hvað er að borða.
Ég morraði á spítala misserin þrjú,
þá minnkaði lífskrafta forðinn,
en sífellt óx skuld mín, og sjá, hún er nú
um sjöþúsund gullkrónur orðin.
Í gjörvallri ætt minni öngvan ég veit
að í æskunni væri ekki kvalinn
og lifði ekki allan sinn aldur á sveit
unz hann endaði jarðlífið galinn.
Þá sjaldan mér áskotnast eyrisverð
það eyðist í blásnauðar hræður:
það fer til að styrkja´ hina félausu mergð,
mína fátæku velalings bræður.
Nú veist þú, ó nefnd, um minn naumlega hag,
og neitir þú alveg að laga´hann,
þá hef ég ekki annað til athvarfs þann dag
en ólina, lykkjuna og snagann.
Athugasemdir
Sammála Pjetur, hið besta mál.
SM, 23.2.2007 kl. 10:15
Er þá ekki næst að banna múslimum að koma til landsins.Það er vitað að þeir brjóta öll réttindi á konum.Þær mega ekki keyra bil og þaðan af verra.Nú hlítur feministafélagið og fleiri að passa að þetta lið komi ekki til landsins
ingo skulason (IP-tala skráð) 23.2.2007 kl. 11:56
Heyr, heyr Ingó, bönnum nú með öllu komur múslima hingað til lands, því að þeir hljóta jú eðlilega að vera óvinir feminista númer eitt, tvö og þrjú. Engir í heiminum brjóta meira á réttindum kvenna en múslimar, þannig að það er alveg í rökréttu framhaldi að banna múslimum að gista á hótelum á Íslandi ! Klámframleiðendur hreinlega roðna í samanburðinum !
Stefán
Stefán (IP-tala skráð) 23.2.2007 kl. 15:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.