21.2.2007 | 22:09
Þankar út frá vísu eftir Nils Ferlin
Skyldi ekki blessuð menningin, sem okkur er svo töm á tungu, snúast aðallega um það , hvernig fólki gengur að búa á sitt hvorri hæðinni í sama húsinu? Ég veit það ekki alveg fyrir víst. En það hvarflar stundum að mér, að mannlífi öllu sé lifað í einu risastóru fjölbýlishúsi. Og ef til vill svolítið úti í garði að auki. Auðvitað vil ég ekki útiloka, að þetta sé misskilningur. Þó læt ég fljóta með vísu eftir sænska skáldið Nils Ferlin, í ágætri þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. Ég er nefnilega ekki frá því, að vísan sú arna, skjóti nokkrum stoðum undir skoðun mína. En nóg um það; hér kemur vísan:
Á loftinu er kæti og kliður,
þótt klukkan sé þegar tólf.
Og þá lýstur þanka niður:
að þak mitt er annars gólf!
Jæja, þetta eru nú bara þankar til að bera með sér inn í góða nótt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.