Örlög maddömu Framsóknar

Allt hefur sinn tíma og allt hefur sinn stað.  Þannig roðar rísandi sól austrið að morgni dags, en hnígur í vestri að kveldi.  Eins er það með stjórnmálaflokka, sem og önnur mannanna verk.  Það er langt síðan sól maddömu Framsóknar stóð í hádegisstað.  Nú er svo komið, að dauft skin frá bjarma hennar ber lítillega við fjallsbrún í vestri. 

Menn leita víða skýringa á örlögum þessarar öldnu frúar íslenskra stjórnmála.  Sumir nefna langt og ef til vill full tilfinningaþrungið tilhugalíf með Sjálfstæðisflokknum, meðan öðrum verður tíðrætt um forystumennina, bæði þann sem nú situr við stjórnvölinn og hinn, sem stigið hefur til hliðar.  Og víst er um það; Halldór Ásgrímsson var ekki frá Hriflu og það er Jón Sigurðsson ekki heldur.  Þeir eru báðir „praktíst" þenkjandi menn enda menntaðir í viðskiptafræðum.  Churchill sagði eitt sinn um forvera sinn í forsætisráðherrastóli Breta, Neville Chamberlain, eitthvað í þá veru, að hann hefði orðið góður bókari á bæjarskrifstofunni í Birmingham.  Það ber ekki að lasta slíka stöðu, en ég efast um, að hún útheimti brennandi hugsjónaeld.

Hvað sem því líður, þá hygg ég, að maddömu Framsókn elni nú sóttin, einfaldlega vegna þess, að hún á sér ekki lengur samastað í tímanum.  Rætur hennar liggja, fúnar og feysknar, í bændasamfélagi, sem ekki er lengur til.  Samvinnuhreyfingin er ekki heldur til, í þeirri mynd, sem áður var.  Og það sem verst er, frá sjónarhóli hinnar hrukkóttu og vangafölu maddömu; Vinstri grænir hafa leyst hana af hólmi víðast hvar á landinu.  Þeir standa nú uppi, sem baráttumenn fyrir verndun þess lands, sem maddama Framsókn gerði sér forðum háleitar og rómantískar hugmyndir um.  Þá var hún rjóð í vöngum og horfði dreymnum augum yfir græna velli.  Nú hefur þeim völlum verið drekkt í samræmi við „praktískan" þankagang á bæjarkontórnum í Birmingham.  Og það var maddaman sjálf, sem drekkti þeim.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þetta er nú meiri þvælan í þér kall hefuru ekkert betra fram að færa samfylkingarbomsan þín.

Dolli dropi (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 00:24

2 Smámynd: Jón Svavarsson

Þetta gæti reynst satt!

Því miður er þetta sennilega að verða að veruleika, þó ég sé ekki framsóknarmaður frekar en íhald eða kommi, þá er nauðsynlegt að hafa hæfilega fjölbryttan hóp stjórnmálaflokka, engin verður betri en verðugur andstæðingur getur ögrað honum. Verst er að meðal þessar mörgu flokka sem eru við lýði enn á Íslandi er mikið af hæfileika ríku fólki sem ekki fær að njóta sín, Halldór Ásgríms var ágætur þegar hann kom með eldmóð ungur inní stjórnmálin, en kulnaði og staðnaði og fylltist hroka, svo miklum að honum stökk aldrei bros á vör síðustu misseri. Davíð Oddsson er sennilega einn mesti stjórnmálamaður sem hugsat getur að hafi stjórnað landinu. þó ég væri ekki alltaf sammála því sem hann ákvað, en hann tók á hlutunum. En Davíð fór á sama veg og Halldór fylltist hroka og taldi sig einræðan eða amk næstum því. þess vegna er hæfileg útskipting stjórnmálamanna nauðsynleg.

Jón Svavarsson, 21.2.2007 kl. 11:17

3 Smámynd: Hafsteinn Karlsson

Sæll Pjetur

Kyngimögnuð grafskrift maddömunar.

Hafsteinn Karlsson, 21.2.2007 kl. 14:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband