Hugleiðingar út frá viðtali Egils Helgasonar við Ólaf Ragnar Grímsson

Í gær, sunnudag, var Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands gestur Egils Helgasonar í Silfri Egils á Stöð 2. Þar var m.a. fjallað um setu Ólafs Ragnars í Þróunarráði Indlands og það, hvort eðlilegt gæti talist, að forseti Íslands, tæki það upp hjá sjálfum sér, að þiggja boð um setu í slíku ráði á erlendri grund. Ég ætla ekki að gerast dómari í því máli, heldur nota tækifærið til að minnast á nokkuð, sem virðist hafa farið fram hjá flestum og er þó ekki um neitt smámál að ræða.

 

Vorið 2004 samþykkti alþingi s.k. fjölmiðlafrumvarp, sem ríkisstjórnin lagði fram. Frumvarpið olli miklum deilum og fór svo, að eftir að alþingi samþykkti það, neitaði Ólafur Ragnar að undirrita lögin. Þess í stað nýtti hann stjórnarskrárbundinn rétt sinn og vísaði málinu undir dóm þjóðarinnar.

 

En nú gerðist nokkuð merkilegt; í stað þess að hefja þegar undirbúning þjóðaratkvæðagreiðslu, lagði ríkisstjórnin fram nýtt fjölmiðlafrumvarp, sem raunar var sláandi líkt því gamla, án þess það komi málinu við. Alþingi samþykkti nýja frumvarpið og nú brá svo við, að forseti Íslands undirritaði lögin. Þar með höfðu forseti Íslands, ríkisstjórn og alþingi tekið höndum saman og svipt þjóðina stjórnarskrárbundnum rétti sínum. Þetta þýðir, að allar götur síðan, eða í hart nær þrjú ár, hefur landinu í raun verið stjórnar af mönnum með hæpið umboð, svo ekki sé meira sagt. Forseti Íslands á ekki að stjórna þessari þjóð, né heldur ráðherrar eða alþingismenn. Þjóðin á að stjórna sér sjálf. Hún hefur hins vegar falið ofangreindum aðilum umboð til að fara með vald sitt um takmarkaðan tíma í samræmi við þær reglur sem þjóðin setti með samþykkt stjórnarskrár lýðveldisins árið 1944.

 

Með því að koma í veg fyrir að mál, sem forseti Íslands hafði vísað til þjóðarinnar, eins og hann hefur óskorðaðan rétt til samkvæmt stjórnarskránni, yrði afgreitt af þjóðinni, var hún í raun svipt völdum af sínum eigin umboðsmönnum, forsetanum, ríkisstjórninni og alþingi. Og það merkilega er, að þetta lét þjóðin yfir sig ganga, rétt eins og henni kæmi það ekki við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ásbjörnsson

Ég man eftir því að hafa prentað út lögin og verið farinn að undirbúa mig fyrir upplýsta ákvörðun þegar fýlupúkarnir drógu í land. 

Sigurður Ásbjörnsson, 19.2.2007 kl. 21:49

2 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

-- power to the people -- söng John Lennon og hittir enn naglann á höfuðið or what?

Vilborg Eggertsdóttir, 20.2.2007 kl. 00:37

3 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Í ljósi einhliða  fjölmiðlafárs með frumvarpinu án eðilegrar almennar umræðu var réttlætanlegt  að lögin færu ekki  í þjóðaratkvæðagreiðsla.

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 20.2.2007 kl. 16:18

4 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Þetta er mergurinn málsins.  Ég hef alla tíð verið mjög ósáttur við þetta og talið það ganga valdaráni næst.  26. gr. stjórnarskrárinnar er klár og skýr en ógleymanlegur eru þeir dæmalausu útúrsnúningar sem nokkrir stjórnmálamenn me"ónefndan" fremstan í flokki.   Ef í texta segir "grasið er grænt" þá væru hann og viðhengin vís til að segja:  "nei, grasið er ekki svo grænt, með okkar augum eru svona fölljósgrænfjólblátt, sem sagt alls ekki víst að það sé grænt" og prófessorar í stjórnlagafræði kallaðir til með vísanir til allra átta.

Sveiattan, ég endurtek þarna vorum við næst því að valdarán yrði framið, þ.e. tveir þingflokkar tóku sér það vald að svipta þjóðina stjórnarskrárbundum rétti.  Það má aldrei gerast aftur.  Seint verð ég í aðdáendahópi ÓRG en þarna gerði hann þó hið eina rétta.  Hvað sem öllum útúrsnúningi og einhverju órökstuddu bulli um einhliða fjölmiðlafár er kristaltært í mínum huga þjóðin stóð öndverð gegn þessu gerræði.  

Við verðum að standa vörð um lýðræðið og þingmenn gleymi ekki í hvers umboðið þeir starfa. 

Sveinn Ingi Lýðsson, 20.2.2007 kl. 21:19

5 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Kæra Sigríður Laufey. Ég get því miður ekki verið sammála þér.  Lýðræði, það er vald fólksins, á að vera grundvallaratriði í samfélagi okkar.  Frá því má aldrei víkja, hvað sem á dynur, hvort heldur það er fjölmiðlafár eða annað.

Pjetur Hafstein Lárusson, 20.2.2007 kl. 22:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband